BYGGÐIN í sunnanverðum Digraneshálsi hefur yfir sér nýlegt yfirbragð, enda hefur hún að mestu leyti risið á undanförnum fimm árum. Og enn er þar verið að byggja. Landkostir eru miklir, en landinu hallar á móti suðri og þar er því gott skjól fyrir norðanátt. Efst uppi er víðsýnt og útsýni gott til suðurs og vesturs.
Kópavogur Raðhús á eftirsóttum stað í sunnanverðri Digraneshlíð Með uppsveiflunni í þjóðfélaginu hefur eftirspurn eftir raðhúsum farið vaxandi. Magnús Sigurðsson kynnti sér ný raðhús, sem eru að rísa við Blikahjalla í Kópavogi. BYGGÐIN í sunnanverðum Digraneshálsi hefur yfir sér nýlegt yfirbragð, enda hefur hún að mestu leyti risið á undanförnum fimm árum. Og enn er þar verið að byggja. Landkostir eru miklir, en landinu hallar á móti suðri og þar er því gott skjól fyrir norðanátt. Efst uppi er víðsýnt og útsýni gott til suðurs og vesturs. Reykjanesfjallgarðurinn og Keilir blasa við og síðan má sjá áfram til vesturs út á Álftanes. Þó að byggðin sé nýleg, er hún samt býsna gróin. Þarna var þó nokkur trjágróður fyrir, sem síðan hefur verið hlúð að og bætt við. Efst á svæðinu eru einbýlishús, en þar er hallinn minnstur og byggðin því dreifðari. Neðar er brattinn mun meiri, en þar taka raðhús og sambýlishús við og byggðin er því þéttari. Neðst minnkar svo hallinn á ný. Sérbýlið er alls ráðandi, því að þarna eru engin stór fjölbýlishús. Byggðin er fremur lágreist og þétt. Húsin standa þó ekki of þétt og falla vel inn í landslagið. Þau stallast upp í halla landsins og þannig byggð, að þau tryggja þeim, sem ofar búa útsýni yfir húsin, sem eru fyrir framan. Byggðin er líka öll opnari en ella fyrir bragðið. Þar sem landið er bratt, hefur gatnagerðin verið vandasöm. Aðkoma að hverfinu er samt greið, en hægt er að komast þangað úr þremur áttum, það er Digranesveginum, sem liggur niður í dalinn, Digranesheiði fyrir norðan hverfið og úr austri eftir Heiðarhalla. Sumir húseigendur hafa nýtt sér, hve vel svæðið liggur við sólu með því að koma sér upp sólskálum. Á köldum vetrardögum er gjarnan svokallað gluggaveður, sem allir þekkja. Þá er hlýtt og notalegt fyrir innan glerveggina og bjart og fallegt fyrir utan, þó að kalt sé. Síðustu raðhúsin á svæðinu Nú er verið að byggja síðustu raðhúsin á þessu svæði. Þau eru níu að tölu og standa við Blikahjalla 1-17, rétt austan við Digraneskirkju og eru á tveimur hæðum og með bílskúr. Að sunnanverðu er gott útsýni yfir Kópavogsdalinn og samkvæmt skipulagi verður ekki byggt framan við þessi hús, en göngustígur er rétt neðan lóðamörkin. Lóðirnar eru 400-600 ferm. að stærð og liggja sunnan og neðan við húsin.

Þarna eru að verki KS-verktakar, en eigandur fyrirtækisins eru byggingameistararnir Kristján Snorrason og Þorleifur Sigurðsson. Þeir félagar hafa langa reynslu af húsbyggingum og hafa m. a. byggt yfir 150 íbúðir fyrir Félagsstofnun stúdenta. Nú eru þeir að hefja smíði á 76 íbúða fjölbýlishúsi fyrir félagsstofnunina. Húsin við Blikahjalla eru hönnuð af Herði Harðarsyni arkitekt. Framkvæmdir við þau hófust um áramót og nú eru húsin uppsteypt og verið að setja þökin á. Húsin eru mismunandi að stærð. Í nokkrum þeirra er neðri hæðin 57-59 ferm. og efri hæðin 98-101 ferm. Í þeim stærstu er neðri hæðin um 78 ferm. og efri hæðin um 101 ferm. Aðkoma að húsunum og inngangur er á efri hæð frá Blikahjalla. en hún skiptist í í stóru stofu, rúmgott herbergi, eldhús og bað. Bílskúrin er líka á efri hæð. Á neðri hæð eru þrjú herbergi. Þar sem hús þessi eru byggð í halla, myndast það sem kallað er óuppfyllt lagnarými eða bakrými baka til. Þetta húsnæði má hagnýta með ýmsu móti og þannig bætist við stærð húsanna. Í vesturgöflum nokkurra þeirra er komið fyrir glugga í þessu rými. - Þessi hús eru vönduð, segir Kristján Snorrason. - Utan á steypta útveggina er sett steinull með áföstu vindvarnarlagi, en síðan er sett álgrind utan á, sem svo er klædd með litaðri, varanlegri álklæðningu. Gluggar, svalahurðir og útidyrahurð eru einnig álklædd. Gluggarnir eru trégluggar og settir í eftir á og komið fyrir í steyptum fölsum með traustum þéttingum. Bæði gluggar og hurðir hafa staðist lekapróf hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins. - Bílskúrshurðin er einangruð fellihurð, heldur Kristján áfram. - Á þaki er báruál, en á miðju þaki er þakgluggi úr tvöföldu plasti. Þakkantarnir eru klæddir lituðu áli, en niðurföll eru úr plasti. Í svalahandrið er notuð álburðargrind og hún klædd með sama efni og húsið. Ég leyfi mér því að fullyrða, að vel sé vandað til frágangs á húsunum að utan og miðað við, að viðhald verði í lágmarki. Óháður aðili annast eftirlit Samið hefur verið við verkfræðistofuna Strending um að skoða og hafa eftirlit með þeim byggingarframkvæmdum, sem byggingarfulltrúi tekur ekki út. - Þar er um óháðan aðila að ræða og hann skilar greinargerð við sölu á húsunum, segir Kristján. - Þetta er mjög óvenjulegt og það eru aðeins fáir byggingaraðilar, sem fara svona að. En þetta er gert til hagsbóta fyrir kaupendur og til að tryggja að húsin séu í einu og öllu úr garði gerð eins og þeim var lofað. Húsin eru fáanleg á mismunandi byggingarstigum. Í fyrsta lagi fullgerð að utan en með grófjafnaðri lóð og fyllingu í plani. Að innan verður búið að sandsparsla útveggi, steypa innveggi og loft 1. hæðar, en gólf verða ílögð nema baðgólf. Útiljós og sólbekkir fylgja svo og rafmagnsrör og dósir. Verð húsanna á þessu stigi er 11,4-12 millj. kr. Uppdrættir af pípulögn og rafmagnslögn fylgja, ef húsið er keypt á byggingarstigi. En húsin má einnig fá lengra komin. Þau eru þá með hellulögðu plani og loft efri hæðar einangruð og klædd með gipsplötum en pípukerfi fullgert nema hreinlætistæki. Rafmagn er ídregið nema í innveggjum, rafmagnstafla fullgerð og búið að setja sólbekki. Húsin eru þá tilbúin til málunar að innan og flísalagna og til að setja upp innréttingar og létta skilveggi. Verð húsanna á þessu stigi er á bilinu 13-13,7 millj. kr. Í þriðja lagi er hægt að fá húsin fullgerð að innan sem utan nema lóð er grófjöfnuð en bílaplön fullgerð. Þá fylgja allar innréttingar, böðin eru flísalögð og stálstigi með beykiþrepum er á milli hæða en gólfefni vantar. Verð húsanna er þá 15,9 millj. kr. Ef húsin verða ekki seld áður, er gert ráð fyrir, að þau verði fullbúin til afhendingar í október nk. - Það er talsverður kraftur í nýbyggingum nú með vaxandi uppsveiflu í þjóðfélaginu, sagði Kristján Snorrason að lokum. - En byggingamarkaðurinn er alltaf aðeins seinni af stað en uppsveiflan og áhrifin koma þar síðar fram. Nú finnst mér, sem nýbyggingarnar séu virkilega að taka við sér. Markaðurinn fyrir raðhús hefur verið allgóður, en verð á þeim hefur verið tiltölulega lágt. Öll þjónusta til staðar - Þetta svæði hefur verið eftirsótt frá upphafi og ekki að ástæðulausu, enda verður því helzt jafnað við beztu svæðin annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, segir Dan Wiium, fasteignasali í Kjöreign, þar sem raðhúsin við Blikahjalla eru til sölu. - Þar sem þetta hverfi var byggt við hliðina á annarri byggð, sem til staðar var áður, var flest þjónusta fyrir hendi frá byrjun. Það er stutt í alla þjónustu í miðbæ Kópavogs. Engihjalli með allri þeirri þjónustu, sem þar er að finna, er rétt fyrir austan og Digranesskóli er við norðausturhorn svæðisins.

Gott frístundasvæði er líka skammt frá og stutt í aðal útivistar- og íþróttasvæði Kópavogs með fótaboltavöllum, hlaupabrautum o. fl. Kópavogslækur rennur fyrir neðan svæðið, en þar eru göngustígar og gróðurbelti. Að sögn Dans Wiium er það einkum barnafólk, sem sækist eftir þessum húsum. - Þetta er mjög barnvænt hverfi, en að sjálfsögðu eiga allir erindi í þessi hús, segir hann. - Það er þó einkum fólk, sem á eign fyrir, en vill stækka við sig, sem hefur mestan áhuga á þeim. Margir kjósa að kaupa raðhúsin fullfrágengin að utan en skemmra komin að innan. Þetta stafar af því, að aðstaðan við fjármögnun við kaup á raðhúsum er önnur en við kaup á blokkaríbúðum. Húsbréfakerfið fjármagnar nýjar íbúðir upp að 6-7 millj. kr., en afganginn verður fólk að fjármagna sjálft. Þetta kerfi dugar all vel við kaup á íbúðum í fjölbýli, þar sem húsbréfin ná yfir meiri hluta kaupverðsins. Verð á fullbúnum raðhúsum er hins vegar miklu hærra og því verða kaupendur oft að dreifa framkvæmdum á fleiri ár af peningaástæðum. Þeir geta þá lokið við að innrétta í áföngum eftir efnum og ástæðum. Auðvitað er engin algild til í þessu frekar en svo mörgu öðru. En ef fólk á góða, skuldlitla íbúð fyrir, þá er hún oftast sá fjárhagslegi stökkpallur, sem þarf til þess að komast í gott raðhús. Þessi raðhús við Blikahjalla eru seld fullfrágengin að utan og fokheld að innan eða lengra komin. - Að mínu mati er það mjög heppilegt fyrir umhverfið og byggðina í kring, að raðhús séu fullkláruð að utan við afhendingu, segir Dan. - Það kemur í veg fyrir, að sum húsin standi ókláruð að utan í lengri eða skemmri tima, stundum til mikilla lýta fyrir umhverfið. Þetta á sér því miður stundum stað. Gott hverfi fyrir endursölu - Vegna þess hvað þetta hverfi er nýtt, hefur verið fremur lítið um, að eignir þar komi í endursölu, segir Dan Wiium að lokum. - En þegar það hefur gerzt, hefur sala á þeim yfirleitt gengið vel. Eignirnar hafa farið fljótt og það á góðu verði.

Í heild má segja, að ásókn í nýju hverfin í Kópavogi hafi verið mikil. Þetta svæði hefur þó þá sérstöðu, að það er að kalla fullbyggt. Umhverfið er því mun grónara og fallegra en á þeim nýbyggingasvæðum, sem eru skammt á veg komin. ÚTLITSTEIKNING af húsun um við Blikahjalla. Alls eru húsin 9 og á bilinu 160-180 ferm. að stærð. Þau eru til sölu hjá fasteignasölunni Kjöreign og fánlega á mis munandi byggingarstigum og því á mismunandi verði. Morgunblaðið/Jim Smart BYGGINGAMEISTARARNIR Þorleifur Sigurðsson og Kristján Snorrason ásamt Dan Wiium, fasteignasala í Kjöreign. Mynd þessi er tekin fyrir framan raðhúsin, sem KS-verktakar eru með í bygg ingu við Blikahjalla í Kópa vogi. Morgunblaðið/Árni Sæberg SUÐURHLÍÐ Digranesháls er býsna gróin miðað við, hvað hverfið er nýlegt. Byggðin stallast niður á við og tekur þannig mið af hallan um í landslaginu og legu gagnvart sól.