GRASMAÐKUR hefur valdið miklu tjóni á túnum á Stóra-Klofa og Stóru- Völlum í Landsveit, en maðkurinn hefur eytt grasi á hátt í 100 hektara túnum á þessum bæjum og fleiri í nágrenninu. Þá hefur maðkur valdið gróðurskaða undir Eyjafjöllum, en að sögn Kristjáns Bjarndals Jónssonar hjá Búnaðarsambandi Suðurlands hefur maðkurinn sennilega eytt nokkur hundruð hekturum af úthaga.
Grasmaðkur herjar á tún og

úthaga á Suðurlandi

Tún iðandi

af maðki

GRASMAÐKUR hefur valdið miklu tjóni á túnum á Stóra-Klofa og Stóru- Völlum í Landsveit, en maðkurinn hefur eytt grasi á hátt í 100 hektara túnum á þessum bæjum og fleiri í nágrenninu. Þá hefur maðkur valdið gróðurskaða undir Eyjafjöllum, en að sögn Kristjáns Bjarndals Jónssonar hjá Búnaðarsambandi Suðurlands hefur maðkurinn sennilega eytt nokkur hundruð hekturum af úthaga.

"Bændur voru að giska á að það þýddi ekki að sleppa út kúm þarna fyrr en einhverntíma í júlí, en þarna er einfaldlega grasleysi. Ég held því að þetta sé í raun og veru miklu verra heldur en undir Fjöllunum, en þar er hann lítið eða ekki kominn í túnin," sagði Kristján.

Hann sagði að grasmaðkur kæmi alltaf í faraldri og árferðið í ár hefði verið þurrkasamt og þess vegna hefði maðkurinn náð sér vel á strik.

"Þegar hann var búinn að fara yfir túnin bæði á Stóru-Völlum og Stóra- Klofa þá iðaði allt túnið af maðki og við sáum ekki stingandi strá. Mosinn verður hvítgrár og eltingin, sem maðkurinn tekur ekki, stóð eins og jólatré upp úr sinunni," sagði Kristján.

Gífurlegt kal í túnum

Gífurlega mikið kal er í túnum víða á Suðurlandi, en alversta svæðið er að sögn Kristjáns líklega í Hlíðarbæjunum svokölluðu allt frá Haukadal að Laugarvatni. Á Miðhúsum eru t.d. 60­70% túnanna kalin og minnast menn ekki jafn mikils kals á þessum slóðum áður. Þá er mikið kal í túnum á Skeiðum. Sláttur er hvergi byrjaður svo heitið geti á Suðurlandi enda hefur spretta verið lítil það sem af er sumri.

Morgunblaðið/Þorkell Á MYNDINNI, sem tekin var úr lofti í gær, er horft til norðnorðausturs. Vinstra megin við miðja mynd eru bæjarhúsin og kirkjan á Skarði. Þar fyrir sunnan sjást kalin tún en fyrir norðan bæinn og á túnum fyrir austan lækinn, sem er á miðri mynd, hefur maðkurinn étið upp allt gras. Austanmegin við lækinn eru bæjarhúsin á Stóraklofa og sést vel að maðkurinn hefur étið upp allt í kringum bæinn nema smá rönd.