"AUGLJÓSLEGA fasísk", "svik við kvenréttindabaráttuna", "niðurlægjandi fyrir karlmenn", svona voru viðbrögð sumra bandarískra kvikmyndagagnrýnanda þegar vegamyndin "Thelma & Louise" var frumsýnd fyrir sex árum.
Umdeild kvikmynd

"AUGLJÓSLEGA fasísk", "svik við kvenréttindabaráttuna", "niðurlægjandi fyrir karlmenn", svona voru viðbrögð sumra bandarískra kvikmyndagagnrýnanda þegar vegamyndin "Thelma & Louise" var frumsýnd fyrir sex árum. Aðstandendur myndarinnar, Ridley Scott leikstjóri, Callie Khouri handritshöfundur, og aðalleikkonurnar Susan Sarandon og Geena Davis voru mjög hissa á þessum viðbrögðum, en "Thelma & Louise" er um vinkonur sem ætla í frí saman en lenda í ógöngum og taka lögin í eigin hendur.

Sarandon sagði að neikvæðu viðbrögðin við myndinni sýndu vel hversu ráðandi hvítir karlmenn væru í umfjöllun um kvikmyndir. Hún benti t.d. á að enginn gagnrýnandi hefði æjað þegar Arnold Schwarzenegger skaut Sharon Stone í höfuðið í "Total Recall" (1990) og hreytti síðan í líkið "Ég er skilinn við þig!"

Meint ofbeldi í "Thelma & Louise" hefur líka vaxið þessum gagnrýnendum í augum við fyrstu sýn því að í myndinni er einn maður skotinn og verður það að teljast lítið samanborið við meðalhasarmyndir í dag. Khouri segir að hún hafi lært eitt af þessum viðbrögðum við myndinni. "Áhorfendur vilja hafa ofbeldið í ákveðnum farvegi. Karlmenn eiga að vera gerendurnir og allar breytingar frá því stuða fólk."

"Thelma & Louise" gekk mjög vel í bíóhúsunum en það sama verður ekki sagt um næstu myndir Ridley Scott: "1492: Conquest of Paradise" og "White Squall". Í ár er væntanleg frá Scott "G.I. Jane" með Demi Moore í aðalhlutverki.

SUSAN Sarandon og Geena Davis í "Thelmu & Louise".