AÐ MATI Þjóðhagsstofnunar verður kaupmáttur launa árið 1999 svipaður og hann varð mestur á árunum 1987­88, en þá jókst kaupmáttur mjög mikið, en féll síðan hratt aftur þegar samdráttur varð í efnahagslífinu. Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ, segir að þetta sýni að sú stefna verkalýðshreyfingarinnar að vinna hægt en markvisst að aukningu kaupmáttar sé farin að skila árangri.
Útlit er fyrir að kaupmáttur muni aukast hratt á næstu árum

Kaupmáttur í sögu-

legu hámarki 1999

AÐ MATI Þjóðhagsstofnunar verður kaupmáttur launa árið 1999 svipaður og hann varð mestur á árunum 1987­88, en þá jókst kaupmáttur mjög mikið, en féll síðan hratt aftur þegar samdráttur varð í efnahagslífinu. Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ, segir að þetta sýni að sú stefna verkalýðshreyfingarinnar að vinna hægt en markvisst að aukningu kaupmáttar sé farin að skila árangri.

Ari sagði að eitt af því sem hefði einkennt íslenskt efnahagslíf væru miklar sveiflur í kaupmætti. Kaupmáttur hefði fallið 1983­84, en aukist síðan mjög hratt á árunum á eftir og náð sögulegu hámarki 1987­88. Síðan hefði hann fallið aftur. Frá 1994 hefði kaupmáttur vaxið hægt en örugglega og því væri allt útlit fyrir að kaupmáttur myndi ná sögulegu hámarki í lok samningstímabilsins.

"Þetta sýnir vel hvað við höfum verið að ganga í gegnum á síðustu árum. Þetta sýnir einnig að sú leið sem við höfum valið að fara í kjaramálum, þ.e. að hækka okkur hægt og sígandi, er farin að skila árangri. Hins vegar ef skoðaðar eru tölur um atvinnuleysi og fjölda starfa kemur í ljós hin hlið málsins því að það er ekki fyrr en á árinu 1996 sem við erum að ná sama fjölda starfa og var á árunum 1987­ 1988," sagði Ari.

Minni verðbólga og meiri kaupmáttur

Verðhækkanir á fyrstu mánuðum nýs samningstímabils hafa verið heldur minni en hagfræðingar spáðu og því eru horfur á að verðbólga í ár verði vel innan við 3%. Flest bendir til að markmið um 3% kaupmáttaraukningu náist í ár og jafnvel gott betur.

Ari sagði ljóst að fyrirtæki hefðu mörg hver svigrúm til að borga hærri laun og ASÍ vonaðist eftir að starfsmenn þeirra myndu láta reyna á það í vinnustaðasamningum, en ákvæði um þá var sett inn í nýgerða kjarasamninga. Á vegum verkalýðshreyfingarinnar væri verið verið að undirbúa að stórefla menntun trúnaðarmanna, en þeir koma til með að gegna lykilhlutverki við gerð vinnustaðasamninga. Ari sagðist hafa trú á að vinnustaðasamningar ættu eftir að færa launafólki kjarabætur umfram það sem fram kæmi í aðalkjarasamningum.

"Það er margt sem bendir til þess að kaupmáttur hér á landi eigi eftir að verða stöðugri í framtíðinni en hann hefur verið. Ástæður sveiflnanna eru sveiflur í afla og sveiflur í verði fiskafurða. Þetta er orðið stöðugra. Við erum farin að stjórna aflanum og veiðum sennilega alltaf aðeins minna en við getum. Við erum einnig komin með hærra vinnslustig í framleiðsluna þannig að við erum ekki þeir hráefnisframleiðendur sem við vorum. Verðið á fiskafurðunum er þess vegna stöðugra. Auk þess er atvinnulífið orðið fjölbreyttara og við höfum miklar tekjur af ferðamannaþjónustu, iðnaði o.fl. Við erum því væntanlega komin út úr þeim tíma þar sem við tókum miklar dýfur í kaupmætti," sagði Ari einnig.