ÞETTA ER afskaplega falleg lóð, á fallegum stað með útsýni til allra átta og þar getur andinn svifið yfir vötnunum", segir Jón Pálmi Pálsson bæjarritari á Akranesi en bærinn hefur ákveðið að úthluta 1,6 hektara lóð í landi Innsta-Vogs undir búddahof.
Búddahofið mun rísa á Akranesi

ÞETTA ER afskaplega falleg lóð, á fallegum stað með útsýni til allra átta og þar getur andinn svifið yfir vötnunum", segir Jón Pálmi Pálsson bæjarritari á Akranesi en bærinn hefur ákveðið að úthluta 1,6 hektara lóð í landi Innsta-Vogs undir búddahof.

"Það kom formleg tillaga frá Pétri Ottesen bæjarfulltrúa í kjölfar synjunar Bessastaðahrepps og hún var samþykkt í bæjarstjórninni. Við höfðum samband við þá að fyrra bragði til að bjóða þeim hingað upp eftir til að skoða aðstæður. Það komu fleiri svæði til greina, en þetta var einna helst það svæði sem við vildum benda þeim á og þeim mun hafa litist mjög vel á svæðið," segir Jón Pálmi, en þetta er fyrsta lóðin sem úthlutað er á svæðinu.

Að hans sögn getur bygging búddahofsins hafist um leið og gengið hefur verið frá skipulagi, teikningar tilbúnar og tilskilin byggingarleyfi fengist. "Eftir að þetta var ákveðið höfum við verið að laga skipulagið að þeirra þörfum og það er nú þegar búið að staðfesta slíka breytingu í bæjarstjórn og er til staðfestingar hjá skipulagsstjóra ríkisins," segir Jón Pálmi sem hefur ekki orðið var við neitt annað en jákvæð viðbrögð frá Akurnesingum vegna fyrirhugaðs hofs.