FYRSTA skútan til að ná landi í siglingakeppni milli Plymouth og Reykjavíkur var hollenska skútan "Sunday" og kom hún hingað á sunnudagskvöld. 15 skútur taka þátt í keppninni og ekki er enn ljóst hverjir endanlegir sigurvegarar verða því forgjöf hefur ekki verið reiknuð, en flest bendir þó til að hollensku hjónin Peter Ploeg og Patty Smith hrósi sigri.
Fyrsta skútan í siglingakeppni frá Plymouth til

Reykjavíkur kom á sunnudagskvöld

Lásu 8 bækur á leiðinni

FYRSTA skútan til að ná landi í siglingakeppni milli Plymouth og Reykjavíkur var hollenska skútan "Sunday" og kom hún hingað á sunnudagskvöld. 15 skútur taka þátt í keppninni og ekki er enn ljóst hverjir endanlegir sigurvegarar verða því forgjöf hefur ekki verið reiknuð, en flest bendir þó til að hollensku hjónin Peter Ploeg og Patty Smith hrósi sigri. Það vekur ekki síst athygli að skúta þeirra tekur þátt í 2. flokki keppninnar og er aðeins 35,2 fet. Hún náði því forskoti á skútur sem eru upp undir 45 fet og þykir það ótrúlega góður árangur í keppni sem þessari.

Peter Ploeg segir þau hjónin hafa siglt sína jómfrúferð á skútunni hingað til lands fyrir 5 árum. Reynslan af þeirri siglingu hafi þó lítið gagnast þeim nú nema að einu leiti. "Við vissum að það gæti orðið mjög kalt," segir Peter og hlær. "Við vorum heppin með veður, sólin skein og það rigndi sjaldan. Við byrjuðum vel en vorum í slagtogi með 5 öðrum skútum um miðbik leiðarinnar og sáum að við yrðum að leggja okkur betur fram, sem við og gerðum og náðum forskoti síðustu 300 mílurnar."

Peter segir að þau hafi haft mótvind nánast allan tímann sem hafi óneitanlega gert þeim siglinguna erfiðari fyrir. Þau hafa nokkra reynslu af úthafssiglingum og hafa sl. 5 ár varið sumarfríinu í siglingakeppnir milli landa. Er þetta í annað sinn sem þau standa uppi sem sigurvegarar.

Hjónin Peter og Patty stýrðu til skiptis á tveggja tíma vöktum. "Á milli vakta lásum við mikið, alls átta bækur eða eina bók á dag alla leiðina," segir Peter. Gafst því alltaf stund milli stríða til að hlýja sér, slaka á og drekka kaffi. "Siglingin var hin ánægjulegasta, félagsskapurinn góður og samkeppnin hörð sem er auðvitað mjög mikilvægt," segir Peter að lokum. Um kvöldmataleytið í gær höfðu 7 skútur komið til hafnar og er áætlað að keppninni ljúki í dag.



Morgunblaðið/Ásdís PATTY Schmidt og Peter Ploeg komu fyrst að landi í siglingakeppni frá Plymouth til Reykjavíkur. Fögnuðu þau árangrinum í smábátahöfninni við Reykjavíkurhöfn seint á sunnudagskvöld.

"SUNDAY", skúta Hollendinganna Patty og Peters, svífur seglum þöndum að endamörkum keppninnar við golfvöllinn á Seltjarnarnesi.