IÐNAÐAR- og viðskiptaráðherra gaf í gær út leyfi til Hitaveitu Reykjavíkur til að reisa og reka jarðvarmavirkjun með allt að 60 MW afli á Nesjavöllum. Leyfið er háð fyrirvara um að samningur milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. vegna álvers á Grundartanga hafi öðlast endanlegt gildi og samrekstrarsamningur milli Landsvirkjunar og Hitaveitu Reykjavíkur liggi fyrir.


Virkjunarleyfi vegna raf-

orkuvinnslu á Nesjavöllum

IÐNAÐAR- og viðskiptaráðherra gaf í gær út leyfi til Hitaveitu Reykjavíkur til að reisa og reka jarðvarmavirkjun með allt að 60 MW afli á Nesjavöllum. Leyfið er háð fyrirvara um að samningur milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. vegna álvers á Grundartanga hafi öðlast endanlegt gildi og samrekstrarsamningur milli Landsvirkjunar og Hitaveitu Reykjavíkur liggi fyrir. Í tengslum við útgáfu virkjunarleyfisins var undirritað sameiginlegt minnisblað ráðuneytisins og Hitaveitu Reykjavíkur vegna eftirlits með nýtingu jarðhitaforðans og sölu á raforku frá virkjuninni.

Hitaveitan óskaði 17. febrúar sl. eftir leyfi iðnaðarráðherra til að reisa og reka raforkuver á Nesjavöllum og óskaði ráðherra þá eftir umsögn Orkustofnunar, sem mælti með því 17. apríl sl. að ráðherra veitti leyfið með ákveðnum skilyrðum. Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra sagði við undirritun leyfisins í gær að veiting þess væri tákn um aukin umsvif í orkumálum og virkjunum. Þá stendur fyrir dyrum heildarendurskoðun á orkulöggjöfinni en í tillögum nefndar um endurskoðun löggjafarinnar kemur m.a. fram það álit að skynsamlegt sé að að innleiða samkeppni í orkugeiranum í áföngum.

Forðafræðileg úttekt á jarðhitakerfinu

Með undirritun minnisblaðsins staðfestu iðnaðarráðuneytið og Hitaveita Reykjavíkur að gerð yrði forðafræðileg úttekt á jarðhitakerfinu á Nesjavöllum áður en raforkuvinnsla hefst haustið 1988. Þá verður árlega unninn samanburður á rauntölum og spám um jarðhitaforðann og ef svo virðist sem óeðlilega hratt gangi á hann, skal Hitaveitan gera grein fyrir þeim aðgerðum sem hún hyggst grípa til. Tekið er fram að verði breytingar á skipan raforkumála í landinu, sem feli í sér aðskilnað vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu á rafmagni, til að koma á samkeppni í raforkuvinnslu og -sölu, muni sala á rafmagni sem Hitaveitan vinnur á Nesjavöllum fara eftir þeim reglum, að öðru leyti en því sem kveðið er á um í árituðum drögum að samningi milli Hitaveitu Reykjavíkur og og Landsvirkjunar vegna sölu á rafmagni til Norðuráls hf.

Morgunblaðið/Ásdís HALLDÓR J. Kristjánsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar Veitustofnana Reykjavíkur, og Gunnar Kristinsson hitaveitustjóri við útgáfu virkjunarleyfis og undirritun sameiginlegs minnisblaðs vegna Nesjavallavirkjunar.