ÁBENDINGAR og athugasemdir vegna aðalskipulags Reykjavíkur 1996­2016 voru lagðar fyrir skipulagsnefnd borgarinnar 9. júní og borgarráð 10. júní ásamt umfjöllun og svörum. Aðalskipulagið var kynnt mjög vandlega á auglýsingatíma, fyrst með kynningarfundum og sýningu í Ráðhúsi 3.­9. maí og síðan kynningu á borgarskipulagi og með umfjöllun og auglýsingu í fjölmiðlum til loka maímánaðar.

Aðalskipulag Reykjavíkur afgreitt 3. júlí

ÁBENDINGAR og athugasemdir vegna aðalskipulags Reykjavíkur 1996­2016 voru lagðar fyrir skipulagsnefnd borgarinnar 9. júní og borgarráð 10. júní ásamt umfjöllun og svörum. Aðalskipulagið var kynnt mjög vandlega á auglýsingatíma, fyrst með kynningarfundum og sýningu í Ráðhúsi 3.­9. maí og síðan kynningu á borgarskipulagi og með umfjöllun og auglýsingu í fjölmiðlum til loka maímánaðar. Á fyrri stigum skipulagsvinnunar var aðalskipulagstillagan kynnt almenningi, síðast á fréttamannafundi í febrúar sl.

Þessar kynningar hafa skilað góðri svörun borgarbúa og bárust athugasemdir við samtals 21 atriði. Í sumum tilfellum bárust margar athugasemdir við sama atriði. Aðlaga má skipulagið allflestum athugasemdunum og munu bréfritarar frá svör og upplýsingar um hvernig verður unnið úr ábendingum þeirra, segir í fréttatilkynningu.

Gert er ráð fyrir lokaafgreiðslu aðalskipulagsins í borgarstjórn 3. júlí en það verður lagt fram til fyrri umræðu á borgarstjórnarfundi 19. júní. Síðan verður aðalskipulagstillagan send til skipulagsstjóra ríkisins til umfjöllunar sem afgreiðir hana til umhverfisráðherra til staðfestingar.

Í framhaldi af samþykkt aðalskipulagsins í borgarstjórn verður unnið að útgáfu sérstakra þemahefta um umhverfis- og umferðarmál og um umhverfi og útivist (Græni vefurinn). Í þessum heftum verður stefnumörkun aðalskipulagsins í þessum mikilvægu málaflokkum fylgt nánar eftir með tillögum og upplýsingum til borgarbúa. Úgáfa þemahefta er áætluð um næstu áramót.