ÞEIR fóru á kostum allir þrír, Einar Kárason, Einar Már Guðmundsson og Matthías Johannessen, þegar þeir lásu úr verkum sínum á Menningarhátíðinni, sem nú stendur yfir í Toronto í Kanada, ásamt 20 öðrum skáldum og rithöfundum frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Alls koma hins vegar fram á hátíðinni um 2.
Íslensk skáld og leikarar

á menningarhátíðinni í Totonto

Toronto. Morgunblaðið

ÞEIR fóru á kostum allir þrír, Einar Kárason, Einar Már Guðmundsson og Matthías Johannessen, þegar þeir lásu úr verkum sínum á Menningarhátíðinni, sem nú stendur yfir í Toronto í Kanada, ásamt 20 öðrum skáldum og rithöfundum frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Alls koma hins vegar fram á hátíðinni um 2.000 listamenn frá þeim átta löndum, sem næst liggja norðurheimskautinu, auk fyrrgreindra eru það Bandaríkin (Alaska), Rússland og Kanada.

Efnið sem þeir Einar, Einar Már og Matthías fluttu vakti óskipta athygli. Matthías las ljóð sín flest á ensku, en einnig nokkur á íslensku. Flutningur hans var einlægur og hrynjandi ljóðanna skilaði sér til áheyrenda. Einar Már las úr verkum sínum á sinn yfirvegaða hátt, fumlaust og skýrt. Einar Már er nú ekki hvað síst þekktur hér fyrir að hafa samið handritið að Börnum náttúrunnar, einu kvikmyndinni frá Íslandi sem hefur hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Einar Kárason byrjaði á því að segja frá skondnum atvikum með heimspekilegum fléttum og fór um víðan völl, en las síðan Kveldúlfsþátt Kjörbúðanna úr bók sinni Söngur villiandarinnar.

Þessir listamenn þrír eru afar ólíkir, efnið sem þeir fluttu ólíkt og framkoma og flutningur ólíkt, en það var líkt með þeim öllum, að áheyrendur kunnu vel að meta og létu ánægju sína í ljós með dynjandi lófaklappi í lok flutnings hvers og eins.

Yfirleitt var salurinn þar sem upplestrarnir fóru fram fullsetinn, en hann rúmar um 200 manns. Þarna hafa 2.400 skáld og rithöfundar alls staðar úr heiminum komið fram á síðustu 23 árum.

Sýningar Bandamanna Sveins Einarssonar áttu upphaflega að vera fjórar, og voru þær allar auglýstar í dagskrá hátíðarinnar. Einhverra hluta vegna urðu sýningarnar hins vegar aðeins tvær. Aðsókn var allgóð í bæði skiptin og verkinu vel tekið enda þótt það væri flutt á íslensku. Fyrir sýningar fengu leikhúsgestir hins vegar skýringartexta á ensku, þar sem hvert atriði er rakið í stuttu máli.

Eftir síðari sýningu Bandamanna hitti blaðamaður Morgunblaðsins leikstjórann og leikarana baksviðs og vonbrigði þeirra leyndu sér ekki. Þau höfðu ekki skýringar á reiðum höndum, hvers vegna sýningarnar urðu aðeins tvær, en töldu að ekki hefði verið staðið að málum hér eins og til stóð af hálfu skipuleggjenda. Sveinn sagði ennfremur, að þau hefðu boðist til að sýna Amlóða í Íslendingabyggðum í Manitoba fyrst þau væru komin alla leið til Kanada á annað borð, en þar hefði ekki verið áhugi á því og það hefði einnig komið þeim á óvart og valdið þeim vonbrigðum.

Tónlist líka á dagskrá

Trio Nordica hefur komið fram við nokkur tækifæri á Menningarhátíðinni og Hamrahlíðarkórinn verður með tónleika í næstu viku og Hörður Áskelsson verður meðal einleikara á orgeltónleikum, sem þá verða haldnir.

Íslendingafélagið í Toronto efnir til móttöku 22. júní fyrir þá þátttakendur frá Íslandi sem þá verða hér og fleiri gesti.

Morgunblaðið/Jón Ásgeirsson

EINAR Kárason, Matthías Johannessen og Einar Már Guðmundsson fóru á kostum, þegar þeir fóru með skáldverk sín á Menningarhátíðinni í Toronto.

SÝNINGAR Bandamanna urðu færri en til stóð, en þeir sem sáu tóku verkinu vel.