FÉLAG íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) hefur óskað eftir því við samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins um skipulag vinnutíma, að hún kanni hvort samningstilboð samninganefndar ríkisins til FÍN standist ákvæði vinnutímatilskipunar ESB. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru uppi efasemdir innan nefndarinnar um að svo sé.
Náttúrufræðingar óska eftir áliti samráðsnefndar um vinnutíma Efasemdir um að ákvæðið standist tilskipun ESB

FÉLAG íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) hefur óskað eftir því við samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins um skipulag vinnutíma, að hún kanni hvort samningstilboð samninganefndar ríkisins til FÍN standist ákvæði vinnutímatilskipunar ESB. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru uppi efasemdir innan nefndarinnar um að svo sé. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerði fyrir viku kjarasamning við ríkið sem er með þessum umdeildu ákvæðum um vinnutíma.

Með vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, sem tók gildi um síðustu áramót, voru þrengd ákvæði um vinnutíma. Aðilar vinnumarkaðarins gerðu í desember og janúar samning um framkvæmd tilskipunarinnar. Ríkið og sveitarfélögin gerðu slíkan samning við ASÍ og samtök opinberra starfsmanna 23. janúar sl. þar sem settar voru meginreglur varðandi vinnutíma og við hvaða aðstæður mætti víkja frá þeim.

Frávik frá reglu um 8 tíma hvíld

Í nær öllum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á þessu ári hafa verið sett nánari ákvæði um vinnutíma með hliðsjón af þessu rammasamkomulagi um vinnutíma. Nokkur munur er þó á vinnutímakafla landssambanda ASÍ og því samningstilboði sem ríkið hefur boðið náttúrufræðingum og hjúkrunarfræðingar sömdu um í síðustu viku.

Í vinnutímakafla ASÍ félaganna segir: "Í öllum tilfellum er óheimilt að skerða átta klst. samfellda hvíld." Í samningstilboði samninganefndar ríkisins segir hins vegar að ef "sérstakar aðstæður" geri það óhjákvæmilegt að lengja samfellda vinnulotu fram yfir 16 tíma eða 24 tíma skuli frítökuréttur starfsmanna lengjast. Athygli vekur að þessari nýju reglu er ekki ætlað að taka gildi við undirritun samnings heldur 1. júlí 1998.

Ríkið og sveitarfélögin hafa ekki tilnefnt mann í samráðsnefndina og vegna fjarvista verður ekki hægt að halda fund í nefndinni fyrr en í næstu viku. Félag íslenskra náttúrufræðinga hefur verið í ströngum kjaraviðræðum síðustu daga og vikur og hafa menn verið að reikna með að gengið yrði frá nýjum kjarasamningi nánast á hverjum samningafundi. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að fresta frekari kjaraviðræðum fram yfir fund samráðsnefndarinnar.

Titringur innan félaganna

Þetta mál hefur valdið nokkrum titringi innan félaganna sem málið varðar og hefur ASÍ blandast inn í það. Forystumenn samningsaðila hafa hins vegar verið tregir til að tjá sig um málið þar sem efnisleg umfjöllun hefur ekki farið fram í samráðsnefndinni. Félög hjúkrunarfræðinga og náttúrufræðinga hafa hins vegar sent frá sér yfirlýsingar, en þær fela m.a. í sér viðbrögð við frétt Ríkisútvarpsins um málið, sem send var út um helgina.

Í yfirlýsingu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að kjarasamningur félagsins sé fullkomlega löglegur og standist vinnutímatilskipun ESB og íslensk lög. Samningurinn tryggi vinnuvernd hjúkrunarfræðinga og taki sérstaklega á þeim aðstæðum sem geti skapast í starfi við hjúkrun bráðveikra og slasaðra skjólstæðinga. Félagið hafi átt í nánu samstarfi við Félag íslenskra náttúrufræðinga um þessi mál og milli félaganna sé ekki ágreiningur. Þá segir í yfirlýsingu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að félagið mótmæli harðlega afskiptum ASÍ af kjarasamningi félagsins og því er lýst yfir að ASÍ hafi ekkert úrskurðarvald í þessum efnum.

Í yfirlýsingu Félags íslenskra náttúrufræðinga segir að félagið telji að samningur hjúkrunarfræðinga standist vinnutímatilskipun ESB og íslensk lög. Félagið hafi ekki kært samninginn til ASÍ, enda hafi ASÍ ekki undir nokkrum kringumstæðum lögsögn um kjarasamning aðildarfélaga BHM.

Talsmenn ASÍ vildu ekki tjá sig um málið í gær.