SIGURGEIR Pétursson, skipstjóri á nýsjálenska togaranum Austral Leader, stóð í stórræðum á dögunum þegar hann átti í útistöðum við línuskip sem voru að ólöglegum veiðum í Suðuríshöfum. Sigurgeir brá sér í hlutverk landhelgisgæslu og stuggaði við skipunum. Málið hefur vakið nokkra athygli í fjölmiðlum í Ástralíu.
Íslenskur skipstjóri stendur í stórræðum í Suðuríshöfum

Tók að sér hlut-

verk gæslunnar

SIGURGEIR Pétursson, skipstjóri á nýsjálenska togaranum Austral Leader, stóð í stórræðum á dögunum þegar hann átti í útistöðum við línuskip sem voru að ólöglegum veiðum í Suðuríshöfum. Sigurgeir brá sér í hlutverk landhelgisgæslu og stuggaði við skipunum. Málið hefur vakið nokkra athygli í fjölmiðlum í Ástralíu.

Sigurgeir hefur verið með skip sitt að veiðum við Heard-eyju, sem er á áströlsku yfirráðasvæði, um 2.300 sjómílum suðvestan við Ástralíu og um 700 sjómílum norðan við Suðurheimskautslandið. Svæðið var einungis opnað fyrir fiskveiðum fyrr á þessu ári og þar hafa einungis tvö skip leyfi til veiða. Annað þeirra er Austral Leader.

Sigurgeir segist í samtali við Morgunblaðið hafa komið að sex erlendum línubátum að ólöglegum veiðum nú í júníbyrjun. "Ástralir hafa fram að þessu ekki verið með gæsluskip hér vegna fjarlægðarinnar frá Ástralíu. Ég sá mér því ekki annað fært en að taka að mér landhelgisgæsluna og hengdi slæðuna aftan í einn dallinn, dró hann um svæðið og hótaði að draga fyrir þá línuna ef þeir gerðu það ekki sjálfir í hvelli og hypjuðu sig í burtu. Þeir gerðu það nú allir fyrir rest en ekki fyrr en einn þeirra hafði reynt að keyra á mig. Það voru ekki nema um 6-8 metrar á milli okkar þegar næst var. Á meðan á þessu gekk voru hríðarbyljir og 8-10 vindstig, þannig að það var býsna mikið fjör. Enda hefur verið mikið fjölmiðlafár út af þessu í Ástralíu," segir Sigurgeir.

Ölduhæðin oft 13 metrar

Sigurgeir segist hafa byrjað árið með veiðum á tannfiski við Macquarie-eyju, sem er um 900 sjómílum suðaustan við Tasmaníu. "Við erum eina skipið sem hefur leyfi til veiða þar. Árið byrjaði vel og við kláruðum kvótann, um 1.000 tonn, á einum mánuði. Kvótinn hér við Heard- eyju er 3.800 tonn en það er heildarkvóti í samkeppni á milli skipanna tveggja. Þetta eru stór og öflug skip, bæði um 90 metra löng og 2.500 og 3.000 lestir. Það veitir ekki af eins og veðrið er hér, sérstaklega yfir veturinn. Veðurfar hér er það versta sem ég hef kynnst, stöðug 7-8 vindstig, með stormi reglulega inn á milli. Sjólagið er auk þess mjög slæmt, ölduhæðin er nánast aldrei minni en 6-7 metrar og ekki óalgengt að hún sé 10-13 metrar í brælunum. Vegalengdin hingað er mjög löng, það tekur okkur oft 10 daga að komast á miðin, því hér eru eilífar vestlægar áttir, en yfirleitt erum við um viku aftur til baka til Ástralíu," segir Sigurgeir.