BANDARÍSKA matsfyrirtækið Moody's Investors Service tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði ákveðið að endurskoða mat sitt á lánshæfi Íslands með hugsanlega hækkun fyrir augum. Í frétt frá Moody's kemur fram að þjóðarbúskapur Íslendinga haldi áfram að uppskera ávöxt aukins frjálsræðis í efnahagslífinu á síðastliðnum sex árum sem m.a. leiddi af sér hækkun á lánshæfismati fyrir ári.

Moody's endur-

skoðar mat á

lánshæfi Íslands

BANDARÍSKA matsfyrirtækið Moody's Investors Service tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði ákveðið að endurskoða mat sitt á lánshæfi Íslands með hugsanlega hækkun fyrir augum.

Í frétt frá Moody's kemur fram að þjóðarbúskapur Íslendinga haldi áfram að uppskera ávöxt aukins frjálsræðis í efnahagslífinu á síðastliðnum sex árum sem m.a. leiddi af sér hækkun á lánshæfismati fyrir ári. Fyrirtækið bendir sérstaklega á mikinn hagvöxt, hækkandi rauntekjur, lága verðbólgu, stöðugt gengi og öfluga fjárfestingu erlendra aðila. Ennfremur bendir fyrirtækið á stranga fiskveiðistjórn sem búist er við að leiði af sér styrkan grundvöll fyrir efnahagslífið og útflutning á komandi árum.

Moody's tekur fram að stórar fjárfestingar og mikil einkaneysla geti hugsanlega leitt af sér ofþenslu í efnahagslífinu og þar með vaxandi verðbólgu og auknar erlendar skuldir. Moody's segir í frétt sinni að endurskoðun lánshæfismats muni beinast að stefnumótun stjórnvalda í efnahagsmálum og á öðrum sviðum sem miðar að því að draga úr sveifluhneigð efnahagslífsins.

Moody's hækkaði lánshæfiseinkunn Íslands í júní 1996 eftir að fyrirtækið hafði sagt fyrr á árinu að það mundi endurskoða hana með hugsanlega hækkun fyrir augum. Moody's tilkynnti í marsmánuði síðastliðnum að fyrirtækið teldi horfur um lánshæfiseinkunn Íslands jákvæðar. Bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor hækkaði lánshæfiseinkunn sína fyrir Ísland í apríl 1996. Lánshæfismat þessara tveggja fyrirtækja hefur bein áhrif á lánskjör ríkissjóðs og eftir atvikum annarra innlendra aðila á erlendum lánamörkuðum, segir í frétt frá Seðlabanka Íslands.