VIÐSKIPTUM með hlutabréf lauk með tapi í Evrópu í gær þrátt fyrir stöðugleikasáttmála ESB-ráðherra og vegna slæmrar byrjunar í Wall Street. Á gjaldeyrismörkuðum lækkaði gengi dollars lítilega, en hann virðist þó standa vel að vígi þar sem horfur eru á veikum evró- gjaldmiðli. Ástandið var ótryggast í París og lækkaði gengi hlutabréfa um 0,5%.


»Tap þrátt fyrir samkomulag í Amsterdam



VIÐSKIPTUM með hlutabréf lauk með tapi í Evrópu í gær þrátt fyrir stöðugleikasáttmála ESB-ráðherra og vegna slæmrar byrjunar í Wall Street. Á gjaldeyrismörkuðum lækkaði gengi dollars lítilega, en hann virðist þó standa vel að vígi þar sem horfur eru á veikum evró- gjaldmiðli. Ástandið var ótryggast í París og lækkaði gengi hlutabréfa um 0,5%. CAC-40 hlutabréfavísitalan komst í 2825,18 punkta snemma dags og sló þar með met vegna bjartsýni á samkomulag á leiðtogafundinum í Amsterdam. Síðan snerist taflið við og staðan lagaðist jafnvel ekki þegar skýrt var frá stöðugleikasáttmálanum í Amsterdam. Meira mark var tekið á slæmum fréttum frá New York þar sem Dow Jones vísitalan byrjaði illa eftir met sex daga í röð í síðustu viku. Í London var einnig slæmt ástand. FTSE 100 vísitalan, sem setti met á föstudag, lækkaði um 0,8% vegna hinna óhagstæðu frétta frá Wall Street og blaðafregna um atlögu gegn skattafríðindum lífeyrissjóða í næsta fjárlagafrumvarpi. Þrjár methækkanir urðu á FTSE 100 vísitölunni í síðustu viku, en svartsýni hefur aukizt vegna frétta um að ríkisstjórn Verkamannaflokksins hyggist hækka skatta. Afstaðan hefur greinilega breytzt," sagði verðbréfasali. Í Frankfurt urðu talsverðar hækkanir, en IBIS-vísitala tölvuviðskipta lækkaði vegna hinnar slæmu byrjunar í Wall Street.