SÆNSKIR ferðalangar, kona um fimmtugt og tvítugur sonur hennar, lentu í hrakningum á Hólssandi, nálægt Dettifossi sl. laugardagskvöld. Fjórhjóladrifin fólksbifreið sem þau voru á festist í skafli á veginum í sannkölluðu vetrarveðri, stórhríð og töluverðum vindi. Eftir að mæðginin höfðu beðið í bílnum eftir aðstoð í 5­6 klukkutíma, hélt sonurinn fótgangandi eftir aðstoð.
Ferðalangar í hrakningum á Hólssandi

SÆNSKIR ferðalangar, kona um fimmtugt og tvítugur sonur hennar, lentu í hrakningum á Hólssandi, nálægt Dettifossi sl. laugardagskvöld. Fjórhjóladrifin fólksbifreið sem þau voru á festist í skafli á veginum í sannkölluðu vetrarveðri, stórhríð og töluverðum vindi. Eftir að mæðginin höfðu beðið í bílnum eftir aðstoð í 5­6 klukkutíma, hélt sonurinn fótgangandi eftir aðstoð.

Hann kom að bænum Sigtúnum í Öxarfjarðarhreppi um kl. 6 á sunnudagsmorgun eftir um 3 tíma gang um 20 km leið. Að sögn Ásgeirs Ásgeirssonar á Sigtúnum, var Svíinn nokkuð blautur og þreyttur eftir göngutúrinn en heill heilsu. Ásgeir fór með Svíanum og dró bíl ferðalanganna heim að Sigtúnum þar sem hlúð var að þeim. Þau héldu för sinni áfram um miðjan dag á sunnudag áleiðis til Reykjavíkur.

Skömmu eftir að sænsku ferðalangarnir héldu frá Sigtúnum bankaði Íslendingur upp á og leitaði eftir aðstoð fyrir eldri hjón frá Frakklandi sem einnig höfðu lent í vandræðum á svipuðum slóðum. Ásgeir fór þá aðra ferð á bíl sínum og sótti bíl frönsku hjónanna.

Snjóskaflar og drullusvað

Ásgeir sagði að fleiri útlendingar hefðu verið komnir á staðinn þar sem frönsku hjónin sátu föst en þeir hefðu getað ekið á eftir sér yfir versta kaflann. Hann segir að Vegagerðin hafi fengið upplýsingar um að vegurinn væri ófær fólksbílum á sunnudagsmorgun og hefði þá átt að loka honum.

"Þeir ferðalangar sem fóru þarna um á sunnudag höfðu hins vegar fengið þær upplýsingar að vegurinn væri greiðfær sem hann alls ekki var. Þar sem ekki var snjór var allt á kafi í drullu. Það vantar mun betri upplýsingar til erlendra ferðamanna sem eru að leggja á þessa vegi."

Ásgeir segir að gífurleg umferð sé um veginn yfir sumartímann en í raun sé ekki nokkrum manni bjóðandi að fara þarna um fyrr en búið verður að laga veginn.