FJÁRMÁLARÁÐHERRAR Evrópusambandsins (ESB) náðu samkomulagi um stöðugleikasáttmála Evrópska myntbandalagsins (EMU), á fundi sínum í Amsterdam í gær. Samkomulagið felur m.a. í sér að efnt verður til sérstakrar ráðstefnu um atvinnumál á vegum ESB í haust auk þess sem Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) verður falið stærra hlutverk í atvinnusköpun innan ESB.
Fjármálaráðherrar ESB ná samkomulagi um myntbandalagið

Evró á áætlun en aukin

áhersla á atvinnumál

Brussel. Morgunblaðið FJÁRMÁLARÁÐHERRAR Evrópusambandsins (ESB) náðu samkomulagi um stöðugleikasáttmála Evrópska myntbandalagsins (EMU), á fundi sínum í Amsterdam í gær. Samkomulagið felur m.a. í sér að efnt verður til sérstakrar ráðstefnu um atvinnumál á vegum ESB í haust auk þess sem Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) verður falið stærra hlutverk í atvinnusköpun innan ESB. Ekki verður hins vegar hreyft við ákvæðum stöðugleikasáttmálans, sem samkomulag náðist um í Dyflinni í desember sl. Að sögn Gerrit Zalm, fjármálaráðherra Hollands, náðist "algert samkomulag" um ofangreind atriði sem eru í samræmi við það, sem fyrirfram hafði verið reiknað með. Koma þau til móts við þá kröfu Frakka að meiri áhersla verði lögð á hagvöxt og atvinnusköpun í inntökuskilyrðum EMU, en virðast sömuleiðis fullnægja kröfum Þjóðverja um að ekki verði hreyft við ákvæðum stöðugleikasáttmálans, né að útgjöld ESB til atvinnumála verði aukin frekar. Theo Waigel, fjármálaráðherra Þýskalands, sagðist í samtali við fjölmiðla í gær vera ánægður með þessa niðurstöðu. Við komu sína til Amsterdam á sunnudag hafði hann ítrekað þá afstöðu þýsku stjórnarinnar, að ekki kæmi til greina að hreyfa við ákvæðum stöðugleikasáttmálans.

Yves-Thibault de Silguy, sem fer með málefni myntbandalagsins í Framkvæmdastjórn ESB, sagði í gær að boðað yrði til sérstakrar atvinnumálaráðstefnu strax í haust í samræmi við samkomulagið. Þá sagði hann að Evrópski fjárfestingarbankinn myndi fá aukið svigrúm í lánveitingum til atvinnusköpunar.

Síðasta hindrun evrósins úr vegi? Með þessu samkomulagi evrópsku fjármálaráðherranna í gær má ætla að síðustu hindrun evrópska myntbandalagsins hafi verið rutt úr vegi. Hagfræðingar og sérfræðingar á evrópskum fjármálamörkuðum höfðu áhyggjur af því að kröfur Frakka myndu hugsanlega leiða til mun veikara evrós, eða jafnvel til þess að gildistöku þess yrði slegið á frest. Þeirri hættu virðist nú hafa verið afstýrt en eftir stendur óvissa um hvaða aðildarríki muni uppfylla inntökuskilyrðin í fyrstu lotu.