Það er allt á hvolfi í bænum og ótrúlega mikið að gera", stundi feitlagni leigubílstjórinn á leiðinni frá Kalmarflugvelli í bæinn og bætti þó glaðlega við en þú mátt bóka að það er gaman." Í 60 þúsund manna bæ fer það ekki framhjá neinum þegar miðbænum er lokað til að fimm þjóðhöfðingjar og makar geti farið um bæinn í hestvögnum.

Mikil skrautsýning

fyrir skynfærin

Hátíðahöldin í tilefni af 600 ára afmæli Kalmarsambandins leiða ekki aðeins hugann að tilefninu, heldur einnig að því hvernig sögulegra tímamóta er minnst núorðið, segir Sigrún Davíðsdóttir eftir að hafa fylgst með hátíðahöldunum. Það er allt á hvolfi í bænum og ótrúlega mikið að gera", stundi feitlagni leigubílstjórinn á leiðinni frá Kalmarflugvelli í bæinn og bætti þó glaðlega við en þú mátt bóka að það er gaman." Í 60 þúsund manna bæ fer það ekki framhjá neinum þegar miðbænum er lokað til að fimm þjóðhöfðingjar og makar geti farið um bæinn í hestvögnum. Og allt var miðalda- hitt og þetta þegar verið er að halda upp á 600 ára afmæli Kalmarsambandsins. Og svona rétt eins og til að undirstrika að Norðurlöndin eiga ekki alltaf samleið, þá gátu þjóðhöfðingjarnir fimm heldur ekki komið sér saman um neina yfirlýsingu í tilefni afmælisins.

Kalmarbær heldur upp á afmælið allt árið í ár með sýningum og öðrum uppákomum, en hátíðin um helgina með þátttöku norrænu þjóðhöfðingjanna fimm var hápunkturinn. Til að undirstrika legu Kalmar og mikilvægi sjóleiðarinnar lögðu þjóðhöfðingjarnir að bryggju á laugardaginn á þremur svargráum herbátum. Tekið var á móti þeim með lúðrablæstri og ríðandi lífverði sænska kongungsins. Síðan voru þjóðhöfðingjarnir fimm kallaðir fram á sviðið til að taka á móti glerlistaverkum, því sveitin í kringum Kalmar er fræg fyrir glerlist. Fimm glerlistamenn hönnuðu hver sitt verk. Jan Johansson gerði íslenska verkið úr krystal og marmara og kallar það Valla". Hugmyndin að baki marmarastoðunum og krystalssúlunni milli þeirra er lega Íslands á mörkum Ameríku og Evrópu. Verkið fengu forsetahjónin þó ekki heim með sér, heldur verður það á sýningu fram á haust, áður en það verður sent til Íslands.

Undirskriftir en enginn texti Eftir móttökurnar stigu þjóðhöfðingjahjónin fimm hver upp í sinn hestvagn og riðu um götur bæjarins. Ferðin lá í gamlan kirkjugarð, því þar stóð dómkirkjan 1389, þegar Eiríkur af Pommern var krýndur konungur. Í garðinum hlýddu boðsgestir á unga leikkonu segja frá krýningunni á leikrænan hátt, með undirleik kirkjuklukkna og söngs Birgittusystra. Í minningu um þennan atburð og viðurvist þjóðhöfðingjanna skrifuðu þeir síðan allir nafn sitt á granítstein og verða nöfnin síðan rist í steininn. Upphaflega stóð til að ávarp yrði greipt í steininn um tildrög tímamótanna og sameiningu Norðurlandanna, en þjóðhöfðingjunum kom ekki saman um hver textinn ætti að vera, svo á honum verða aðeins undirskriftir og dagsetningar. Aðstandendur hátíðarinnar vildu ekki gefa upp hver upphaflegi textinn hefði verið, né heldur hver hefði haft við hann athugasemdir. Ýmsir túlkuðu þetta þó sem svo að þar sem í textanum hefði verið ætlunin að undirstrika samheldni Norðurlandanna væri höfnun textans dæmi um að einhverjir þjóðhöfðingjanna hefðu ekki vilja gera of mikið úr norrænu sambandi. Í samtali við Morgunblaðið sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands að sér væri ekki kunnugt um þessa deilu, né hver forsagan hefði verið, því hann hefði aðeins fengið að vita að ætlunin væri að skrifa undir á steininn.

Kaþólskt yfirbragð

Kvöldhátíðin byrjaði kl. 19 með kvöldsöng í kastalakapellunni. Þarna var allt flutt á latínu utan biblíulestur og fyrir nútíma mótmælanda var athöfnin með mjög kaþólsku yfirbragði.

Á eftir var móttaka með miðaldabrag í hallargarðinum, þar sem loddarar, tónlistarmenn, eldgleypar og aðrir ærslabelgir í miðaldabúningum skemmtu sér og boðsgestum í hátíðakvöldverðinum.

Hann var í miðaldastíl, allt frá því að gestir voru kallaðir fyrir af stallara og leiddir að borðum, þar sem beið þeirra matur og skemmtan í réttum sögulegum stíl. Á eftir settust allir út til að horfa á 1 klukkustundar langa skrautsýningu sem var í besta ólympíuleikastíl með ljósmynstrum á kastalanum, hjólreiðum á vatninu, línudansi yfir því, loftfimleikum, rafknúnum svönum, fljúgandi nornum á kústskafti og fallhlífarstökkvara er bar af leið. Tónlistin spannaði allt frá miðaldatónum og rómantískum ástardúett úr kastalaglugganum, fram að raftónlist samtímans og söngvurum og herhljómsveit er marseraði um við kastalann. Hvort að kameldýrið, sem tölti á eftir var vísun til miðaldanna eða ónefnds tóbaksfyrirtækis kom aldrei í ljós, fremur en hver boðskapurinn var með þessu öllu saman.

Hátíð fyrir augu og eyru Það var svo á sunnudaginn, sem hátíðinni lauk með hámessu í Kalmardómkirkju, þar sem biskupar frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum tóku þátt í skrúðgöngu og settu svip á messuna. Séra Sigurður Sigurðsson vígslubiskup tónaði og kórinn söng á íslensku Heyr himna smiður, sálm Kolbeins Tumasonar við lag Þorkels Sigurbjörnssonar og það svo vel að greina mátti hvert orð. Þó yfir þúsund manns væru í kirkjunni var gengið til altaris, því prestar með brauð og vín höfðu komið sér fyrir víða í kirkjunni. Athöfninni var sjónvarpað í sænska sjónvarpinu og með messunni lauk hinni formlegu hátíð.

Öll þessi hátíðahöld voru studd og styrkt af fyrirtækjum og stofnunum. Fyrir Íslending, sem vanur er að sögulegum tímamótum sé fagnað með alinlöngum hátíðarræðum þá var fróðlegt að sjá að hér voru það skemmtanir eins og Ólympíuleikarnir, sem gáfu tóninn. Allt miðaðist við augað og eyrað, en síður við hugsun og talandi orð. Hátíðin kom Kalmar rækilega á kortið yfir helgina, því norrænir fjölmiðlar hafa gert henni góð skil. Í heimi markaðssetningar og slagorða þá er slík umfjöllun einmitt það sem stefnt er að og heimamenn meta því árangurinn vísast sem harla góðan. Pressens Bild KARL Gústaf Svíakonungur sýnir gestum sínum Solliden á Öland. F.v.: Karl Gústaf, Haraldur Noregskonungur, Margrét Danadrottning, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú, Ólafur Ragnar Grímsson forseti, Sonja Noregsdrottning og Sylvía Svíadrottning.