SAMNINGAR tókust milli Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða um helgina. Kjarasamningurinn felur í sér að lífeyrisréttindi flugfreyja verða aukin um 2,45%. Sömu áfangahækkanir eru í samningnum og flestar aðrar starfsstéttir hafa samið um og gildistíminn er frá 1. maí 1997 til 15. febrúar 2000. Flugfreyjur gerðu samkomulag við Flugleiðir árið 1995 um að flugfélagið greiddi u.þ.b.
Flugfreyjur og Flugleiðir sömdu um helgina

Flugfreyjur sömdu um

aukin lífeyrisréttindi

SAMNINGAR tókust milli Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða um helgina. Kjarasamningurinn felur í sér að lífeyrisréttindi flugfreyja verða aukin um 2,45%. Sömu áfangahækkanir eru í samningnum og flestar aðrar starfsstéttir hafa samið um og gildistíminn er frá 1. maí 1997 til 15. febrúar 2000.

Flugfreyjur gerðu samkomulag við Flugleiðir árið 1995 um að flugfélagið greiddi u.þ.b. 2,7% iðgjald í séreignarsjóð gegn því að flugfreyjur tækju að sér ákveðin verkefni við flugafgreiðslu erlendis. Samningurinn kvað á um að félagið greiddi iðgjald aðeins til flugfreyja sem voru orðnar 31 árs gamlar. Óánægja var með þetta ákvæði meðal flugfreyja og ágreiningur kom upp um framkvæmdina.

Nýi kjarasamningurinn gerir ráð fyrir að lífeyrisiðgjaldið verði hækkað um 2,45% og nái til allra flugfreyja. Starfstími flugfreyja er styttri en almennt gerist meðal launafólks.

Flugleiðir ráða flugfreyjur í innanlandsflugi

Kjarasamningurinn gerir einnig ráð fyrir að flugfreyjur í innanlandsflugi verði starfsmenn Flugleiða og verða þær leigðar með Fokker-flugvélum félagsins til hins nýstofnaða flugfélags, Flugfélags Íslands. Þetta er svipað ákvæði og Félag íslenskra atvinnuflugmanna samdi um við Flugleiðir í vor. Hins vegar munu flugfreyjur í innanlandsflugi vinna undir öðru vinnutímaákvæði, sem er sniðið að þeim vinnutíma sem almennt er í innanlandsflugi. Flugfreyjurnar í innanlandsflugi verða því eingöngu ráðnar til starfa í innanlandsdeild Flugleiða, en eftir að hafa verið í henni í þrjú ár eiga þær forgangsrétt að störfum í millilandaflugi Flugleiða.

Samningurinn gerir ennfremur ráð fyrir að launatrygging flugfreyja hækki úr 60 flugstundum í 65 fyrir flugfreyju í fullu starfi, en það hefur áhrif á yfirvinnugreiðslur þeirra og bætir stöðu þeirra m.a. þegar þær eru í veikindaleyfi.