Arnar Grétarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu úr Leiftri á Ólafsfirði hefur náð samkomulagi við gríska 1. deildarliðið AEK í Aþenu skv. heimildum Morgunblaðsins og reikna forráðamenn félagsins með honum utan fljótlega til að ganga frá samningi.
KNATTSPYRNA Arnar semur við AEK Arnar Grétarsson, landsliðsmað ur í knattspyrnu úr Leiftri á Ólafsfirði hefur náð samkomulagi við gríska 1. deildarliðið AEK í Aþenu skv. heimildum Morgunblaðsins og reikna forráðamenn félagsins með honum utan fljótlega til að ganga frá samningi.

AEK og Leiftur hafa hins vegar ekki komist að samkomulagi um félagaskipti Arnars og engar formlegar viðræður raunar átt sér stað milli félaganna, að sögn Þorsteins Þorvaldssonar, formanns knattspyrnudeildar Leifturs.

Arnar gekk til liðs við Leiftur fyrir þetta keppnistímabil og er samningsbundinn félaginu út næsta sumar. Þorsteinn vildi ekki svara því hvort Leiftursmenn væru tilbúnir að láta hann fara fljótlega, fari gríska liðið fram á það ­ eins og heimildir Morgunblaðsins herma að verði raunin. "Það er hlutur sem við ræðum þegar við verðum búnir að heyra formlega frá félaginu."

AEK er eitt þekktasta félag Grikklands. Skipt hefur verið um þjálfara og það eru ekki menn af verri endanum sem taka við. Rúmeninn Dumitru Dumitreu er þegar kominn til starfa og verður aðalþjálfari þar til í desember er landi hans Angel Iordanescu kemur og verður aðalþjálfari en sá fyrrnefndi aðstoðarmaður hans. Iordanescu er nú landsliðsþjálfari Rúmeníu og hefur verið síðustu ár og Dumitreu aðstoðarmaður hans þar. Þó svo Iordanescu komi til starfa hjá AEK fyrir áramót verður hann áfram við stjórnvölinn hjá landsliði Rúmeníu, þar til framyfir heimsmeistaramótið í Frakklandi næsta sumar.