WILL Smith var kokhraustur í myndinni "Independence Day" eins og menn muna. Þar þótti hann fara á kostum sem flugmaður í baráttunni við illvígar geimverur. Nú hefur hann leikið í myndinni "Men in Black" sem sérfræðingar vestra halda að verði ein af stórmyndum sumarsins. Myndin verður frumsýnd ytra þann 4. júlí og samtímis hér á landi.

Svartklæddur Smith

WILL Smith var kokhraustur í myndinni "Independence Day" eins og menn muna. Þar þótti hann fara á kostum sem flugmaður í baráttunni við illvígar geimverur.

Nú hefur hann leikið í myndinni "Men in Black" sem sérfræðingar vestra halda að verði ein af stórmyndum sumarsins. Myndin verður frumsýnd ytra þann 4. júlí og samtímis hér á landi. Þar er Will einnig í baráttu við geimverur, sem liðsmaður leynisamtaka á vegum Bandaríkjastjórnar, Svartklæddu mannanna, sem hafa meiri völd en alríkislögreglan. Myndin, sem Steven Spielberg framleiðir, þykir vera gamansöm og spennandi, auk þess að luma á mögnuðum tæknibrellum.

Smith hóf ferilinn sem rappsöngvari árið 1987 og sem slíkur var hann orðinn milljónamæringur 18 ára gamall. Þremur árum síðar hóf hann leikferilinn í sjónvarpsþáttunum "Fresh Prince of Bel­Air" sem voru sýndir í óvenju langan tíma, eða sex ár. Árið 1993 lék hann fyrst í kvikmynd, "Six Degrees of Separation" með Donald Sutherland. Þar á eftir fylgdu myndirnar "Made in USA", "Bad Boys" og fyrrnefnd "Independence Day".

Smith er gífurlega vinsæll í Bandaríkjunum. Þegar hann var staddur á strætum New York við tökur á "Men in Black", kom kona auga á hann og varð svo mikið um að hún lenti í árekstri. Hún hugsaði ekkert um ákeyrsluna, hrópaði: "Guð minn góður", stökk út úr bílnum, elti Will uppi og bað um eiginhandaráritun.

Fyrir skömmu var Smith í Virgin Megastore plötubúð að skoða geisladiska, þegar unglingsstúlka vatt sér skyndilega að honum, lyfti upp peysunni og bað hann um að rita nafn sitt á brjóstin. Hann varð við óskinni, með glöðu geði að eigin sögn. Þegar Smith var nýlega staddur í stórmarkaði gekk níræð tannlaus kona að honum og smellti á hann rembingskossi. Hann segir þá lífsreynslu ekki hafa verið jafn spennandi.