Íslendingar náðu góðum árangri í hópkata á Evrópumeistaramótinu í hefðbundnu karate ETKF, sem fór fram í Davos í Sviss um helgina. Liðið skipuðu Þórshamarsmennirnir Ásmundur Ísak Jónsson, Jón Ingi Þorvaldsson og Sigþór Markússon. Þeir lentu í fjórða sæti í hópkata, sem verður að teljast mjög góður árangur því 22 þjóðir voru með á mótinu.
Íslendingar komu á óvart Íslendingar náðu góðum árangri í hópkata á Evrópumeistaramót inu í hefðbundnu karate ETKF, sem fór fram í Davos í Sviss um helgina. Liðið skipuðu Þórshamarsmennirnir Ásmundur Ísak Jónsson, Jón Ingi Þorvaldsson og Sigþór Markússon. Þeir lentu í fjórða sæti í hópkata, sem verður að teljast mjög góður árangur því 22 þjóðir voru með á mótinu.

"Við bjuggumst alls ekki við svona góðum árangri í hópkata. Samt sem áður hafði ég gert mér meiri vonir um góða frammistöðu liðsins í enbu, en þetta er í fyrsta skipti sem við keppum í þeirri grein á Evrópumóti og drengirnir lögðu sig alla fram," sagði Ólafur Wallevik, liðstjóri íslenska liðsins og dómari á mótinu. Enbu er grein innan karate sem byggist á því að tveir keppendur úr sama liði fá 60 sekúndur til að sýna fyrirfram skipulagðan bardaga. Íslendingarnir komust ekki í fjögurra liða úrslit í þeirri grein, en tíu þjóðir hófu keppni.

"Ég er mjög ánægður með frammistöðu okkar á mótinu," sagði Sigþór í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. "Það var gaman að komast í úrslit á svona stóru móti. Sérstaklega þótti mér fróðlegt að sjá enbu eins og það gerist best. Þá sá ég að við þurfum að krydda æfingar okkar meira með ýmsum fínum töktum," sagði Sigþór.

Íslendingarnir tóku einnig þátt í einstaklingskeppni í kata og kumite. Jón Ingi féll út í fyrstu umferð í kumite og komst ekki upp úr öðrum riðlinum af tveimur í kata, en þrír efstu úr hvorum riðlinum komust í úrslit. Minnstu munaði þó að Ásmundur Ísak kæmist upp úr sínum riðli og var tilkynnt í fyrstu að hann hefði komist áfram, en hann og annar keppandi voru jafnir í síðasta lausa sætinu í sex manna úrslitum. Síðar kom í ljós að um mistök var að ræða og Ásmundur sat eftir með sárt ennið, en hinn keppandinn komst áfram vegna þess að lægsta einkunn hans var hærri en lægsta einkunn Ásmundar.

FULLTRÚAR Íslands á Evrópumótinu voru þeir Sigþór Markússon, Ásmundur Ísak Jónsson og Jón Ingi Þorvaldsson.