"HAFINN yfir meðalmennskuna, frábær og marglitur, í hlutverki Hinriks konungs. Kristinn Sigmundsson var örlátur við óperugesti." Á þessa leið var gagnrýni franska blasins Figaroum Kristin í óperunni Lohengrin eftir Wagner í Bastillunni í París í maí. Kristinn söng Hinrik þegar óperan var aftur tekin til sýningar frá fyrra hausti.

Kristinn lofaður í París

París. Morgunblaðið.

Kristinn Sigmundsson er loksins kominn heim, eins og tónleikagestir í Háskólabíói á fimmtudagskvöldið sáu og heyrðu. Fram að því hafði Kristinn glatt franska óperugesti um langa hríð. Þórunn Þórsdóttir gluggaði í umsagnir um síðustu afrek Kristins í París.

"HAFINN yfir meðalmennskuna, frábær og marglitur, í hlutverki Hinriks konungs. Kristinn Sigmundsson var örlátur við óperugesti." Á þessa leið var gagnrýni franska blasins Figaro um Kristin í óperunni Lohengrin eftir Wagner í Bastillunni í París í maí. Kristinn söng Hinrik þegar óperan var aftur tekin til sýningar frá fyrra hausti. Þess vegna var minna um umsagnir í blöðum en ella, en þar sem fjallað var um sýninguna hlaut Kristinn lof og prís. Franska fréttastofan AFP sagði Kristin að nýju hafa gefið sterka tilfinningu um tónskáldið.

Sviðsetning óperunnar var gagnrýnd, hún þótti ekki koma efninu nægilega við, en hljómsveitinni var hvarvetna hrósað í hástert. Bandaríski tenórinn Thomas Moser hlaut líka hrós, en sumum gagnrýnendum þótti hann ekki halda alveg út, eftir erfiðleika með raddböndin. Franski barítonsöngvarinn Jean­Philippe Lafont var í Figaro sagður njóta sín betur í ítölskum óperum. Sópransöngkonurnar Eva Johanson frá Danmörku og Janis Martin frá Bandaríkjunum þóttu báðar standa sig með mikilli prýði.

Kristinn syngur á Íslandi í kvöld, en hann snýr aftur til Parísar í september og syngur Barolo í Brúðkaupi Fígaros. Nafn hans er orðið frönskum óperuunnendum kunnuglegt, þeir hafa áttað sig á fjölbreytninni í rödd íslenska söngvarans.