VÍÐAST hvar í Þingeyjarsýslum er sauðfé er enn á túnum, sem nú eru að verða uppurin. Ekki er hægt að setja kýr út, þar sem enginn hagi er fyrir þær, og þar við bætist að nokkurt kal er í túnum. Enn er ekki ljóst hvort kuldinn hefur haft áhrif á fuglalíf norðanlands.
Kuldi á Norðurlandi Sauðfé enn á túnum og kýr inni

VÍÐAST hvar í Þingeyjarsýslum er sauðfé er enn á túnum, sem nú eru að verða uppurin. Ekki er hægt að setja kýr út, þar sem enginn hagi er fyrir þær, og þar við bætist að nokkurt kal er í túnum. Enn er ekki ljóst hvort kuldinn hefur haft áhrif á fuglalíf norðanlands.

Ari Teitsson, bóndi á Hrísum í Reykjadal í S-Þingeyjarsýslu og formaður Bændasamtaka Íslands, segir ástandið orðið alvarlegt og tíðarfarið ekkert að skána. "Síðustu tvær nætur hefur verið grátt niður undir bæ hjá mér. Sprettan er engin, hún hefur staðið í stað í um tíu daga. Það kom hlýindakafli fyrir um hálfum mánuði og þá spruttu tún ofurlítið, svo þetta leit ekkert illa út. Þannig að ef þetta hefði haldið þannig áfram hefðu menn getað sleppt fénu á góðum tíma," sagði Ari í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann segir sauðfjárbændur í hinum mestu vandræðum, þar sem túnin séu uppurin og þá fari að koma upp ormaveiki og allskonar sjúkdómar.

Um hálfum mánuði á eftir

"Síðan er svolítið kal, sem ekki bætir úr skák. Jörð er þó víðast hvar orðin frostlaus og tiltölulega blaut, þannig að það gæti sprottið tiltölulega hratt ef hlýnaði," segir hann. Oftast nær hefst sláttur í Þingeyjarsýslum um 20.-25. júní en nú er jörð um hálfum mánuði á eftir því sem gott getur talist, að sögn Ara.

Enn er ekki komið í ljós hvort kuldinn hefur haft áhrif á fuglalíf norðanlands, að sögn Árna Einarssonar fuglafræðings, sem er við rannsóknir á Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn. Hann segir kuldann ekki hafa ráðið úrslitum ennþá að svo miklu leyti sem séð verði og ljóst sé að hann hafi ekki valdið neinu neyðarástandi.