Það vakti athygli á viðureign svokallaðs 23 ára liðs Akurnesinga í knattspyrnu gegn Íslands- og bikarmeistaraliði félagsins á laugardaginn að Sæmundur Víglundsson dæmdi leikinn. Sæmundur dæmir fyrir Knattspyrnufélag ÍA og var því að dæma leik sem hans eigið félag spilaði. Furðu má sæta ákveðið hafi verið að Sæmundur dæmi hjá eigin félagi í opinberum leik á vegum KSÍ.
ALVARA »Hvernig má það vera að dómari frá ÍA dæmi leik ÍA og ÍA? Það vakti athygli á viðureign svokallaðs 23 ára liðs Ak urnesinga í knattspyrnu gegn Íslands- og bikarmeistaraliði félagsins á laugardaginn að Sæmundur Víglundsson dæmdi leikinn. Sæmundur dæmir fyrir Knattspyrnufélag ÍA og var því að dæma leik sem hans eigið félag spilaði.

Furðu má sæta ákveðið hafi verið að Sæmundur dæmi hjá eigin félagi í opinberum leik á vegum KSÍ. Þar með er að sjálfsögðu ekki verið að kasta rýrð á Sæmund sem dómara, enda er hann margreyndur og góður dómari, en hann er settur í þá aðstöðu að óþægileg atvik geta komið upp í leik sem þessum.

Og sú varð einmitt raunin á Akranesvelli á laugardaginn. Umdeilt atvik átti sér stað í upphafi síðari hálfleiks er Þórður Þórðarson, aðalmarkvörður meistaraflokks, lenti í samstuði við einn leikmanna yngra liðsins, Unnar Valgeirsson.

Unnar þessi er frændi markvarðarins ­ þó það skipti vitaskuld ekki máli, og ættartengsl algeng meðal knattspyrnumanna á Akranesi. En þarna kom í ljós að enginn er annars bróðir í leik. Þórður brást nefnilega hinn versti við og hrinti Unnari í tvígang í jörðina. Undir öllum venjulegum kringumstæðum þýðir svona framkoma rautt spjald og leikbann en Sæmundur sá ekki ástæðu til að áminna, hvað þá að reka Þórð út af og verður það að teljast í hæsta máta óeðlileg dómgæsla. Í þessu tilfelli hefur sú ákvörðun dómarans áhrif á meira en þennan tiltekna leik, þar sem með réttri dómgæslu ­ rauðu spjaldi ­ hefði Þórður farið í leikbann strax í næsta leik, gegn Skallagrími í næstu umferð Sjóvá-Almennra deildarinnar annað kvöld. Nokkrir leikmenn Skallagríms fylgdust einmitt með leiknum á Akranesi og voru að vonum undrandi yfir dómgæslunni. Og skyldi engan undra þau viðbrögð Borgnesinga.

Halda mætti að Skagamenn sitji ekki við sama borð og aðrir knattspyrnumenn hér á landi. Eða hefðu ekki verið litlar líkur á því, með dómara frá öðru félagi á vellinum, að leikmaður slyppi við að fá spjald fyrir svo gróft brot sem Þórður varð uppvís að. Viðstaddir fullyrða að Sæmundur hafi komið aðvífandi til Þórðar og Unnars og beðið þá að hætta þessum látum.

KSÍ hljóta að hafa orðið á mikil mistök að láta Sæmund Víglundsson dæma leik Skagamanna, sem er liður í opinberri keppni á vegum sambandsins og hefur gildi sem slíkur. Af þessu ber að læra. Varla getur það hafa verið í sparnaðarskyni, að heimamaður var látinn dæma. Það kostar ekki svo mikið að skreppa á Akranes, t.d. úr Reykjavík.

Ef til vill má segja að það sé undarlegt að Akurnesingar mæti sjálfum sér í bikarkeppni Knattspyrnusambandsins. En að dómari frá félaginu skuli dæma viðureignina er óskiljanlegt. Halda mætti að keppnin sé ekki tekin mjög alvarlega þegar svona er staðið að málum.

Skapti

Hallgrímsson