Leikstjóri Marko Röhr. Tónlist Björk ofl. 50 mín. Finnsk-íslensk heimildarmynd. Marko Röhr Production/ Íslenska kvikmyndasamsteypan. 1997. FINNSKI ævintýramaðurinn, kvikmyndatökumaðurinn og kafarinn Marko Röhr ferðast með áhorfendur um íslenskar furðustrandir sem eru, þrátt fyrir nálægðina, veröld að öllu jöfnu lokuð sjónum okkar.
Ferð um

hulduheima

KVIKMYNDIR

Háskólabíó

UNDIRDJÚP ÍSLANDS (ICELAND UNDERWATER)

Leikstjóri Marko Röhr. Tónlist Björk ofl. 50 mín. Finnsk-íslensk heimildarmynd. Marko Röhr Production/ Íslenska kvikmyndasamsteypan. 1997. FINNSKI ævintýramaðurinn, kvikmyndatökumaðurinn og kafarinn Marko Röhr ferðast með áhorfendur um íslenskar furðustrandir sem eru, þrátt fyrir nálægðina, veröld að öllu jöfnu lokuð sjónum okkar. Kannað landslag og lífríki hafdjúpanna umhverfis landið, hulduheimur Þingvallavatns, jafnvel kíkt ofaní sjálfan Geysi í Haukadal. Finninn knái og aðstoðarmenn hans leita svara við lífsgátunni í félagsskap vatns í sínum breytilegu myndum. Ólgandi hafsins, bergtæru fjallavatninu, beljandi gufubólstrum, bullandi hverum, jöklum, hafís og klakaböndum. Þetta undurfagra kvikmyndaljóð er jafnframt um íbúa þessarar bláleitu vöggu lífsins. Ljós og skuggar leika um þaraskógana og merkilega íbúa þess, hrognkelsi, ígulker, marglittur, kuðunga og krabba. Meira að segja ber á góma sögufrægt ástalíf íbúa Þingvallavatns. Nærmyndirnar eru stórkostlegar líkt og margar, ógleymanlegar tökur úr hulduheimum Þingvallavatns. Það sem mest kemur á óvart er hversu þetta framandi umhverfi er fagurt, litríkt og lífríkið fjölbreytilegt og kvikmyndatakan skýr langt undir yfirborðinu. Djúpin eru veröld þagnarinnar, enda eru hljóð og tónlist sparlega notuð utan unhverfishljóða sem beitt er af smekkvísi. Og Björk jafn ómissandi hér í návíginu við höfuðskepnurnar og annars staðar þegar undur þessa eylands eru til umfjöllunnar. Röhr og töku- og tækniliði hans hefur tekist vel upp í fangbrögðunum við þessa fáséðu hlið náttúrunnar og unnið vel erfitt starf og krefjandi. Undirdjúp Íslands er falleg mynd og athyglisverð, frábær kafli í heimildarsafninu. Það var einkar ánægjulegt og fræðandi að fá að sjá þessar hliðar föðurlandsins og íbúa þess eins og okkur hefur aldrei gefist kostur á fyrr.

Sæbjörn Valdimarsson FRÁ frumsýningunni á Undirdjúpum Íslands í Háskólabíói. Anna María Karlsdóttir, Ari Kristinsson og Inga Björk Sólnes.