FLUGFÉLÖG hafa yfirleitt fagnað nýju þýzku frumvarpi um að dæma megi fólk í allt að tveggja ára fangelsi fyrir að nota farsíma eða önnur rafeindatæki um borð í flugvélum. Bannið nær yfir kjöltutölvur, sjónvarpsmyndatökuvélar og annan búnað, sem kann að hafa áhrif á rafeinda- og fjarskiptakerfi flugvéla.
Þýzku banni við farsímum í flugvélum fagnað



Frankfurt. Reuter.

FLUGFÉLÖG hafa yfirleitt fagnað nýju þýzku frumvarpi um að dæma megi fólk í allt að tveggja ára fangelsi fyrir að nota farsíma eða önnur rafeindatæki um borð í flugvélum.

Bannið nær yfir kjöltutölvur, sjónvarpsmyndatökuvélar og annan búnað, sem kann að hafa áhrif á rafeinda- og fjarskiptakerfi flugvéla.

Ef lögin verða samþykkt á þingi kunna þau að koma til framkvæmda um mitt næsta ár og ná til allra flugvéla, sem fljúga í þýzkri lofthelgi, jafnvel þótt þær fljúgi inn í hana á aðeins stuttum kafla, að sögn samgönguráðuneytisins í Bonn.

Flest flugfélög í heiminum ráða fólki frá því að nota farsíma af öryggisástæðum, en ekki er vitað til þess að það hafi verið bannað með lögum til þessa.

Talsmaður Lufthansa fagnaði fyrirhuguðu banni. Þó eru litlar áþreifanlegar sannanir fyrir því að farsímar eða önnur tæki geti beinlínis truflað rafeinda- og fjarskiptakerfi flugvéla. Aðeins hafa komið upp mál þar sem um hugsanlegar truflanir getur hafa verið að ræða að sögn talsmanns Lufthansa.

Samband evrópskra flugfélaga í Brüssel (AEA) segir að aðeins hafa komið upp mál þar sem verið geti að slík tæki valdi truflunum. Hann taldi þó að flugfélög mundu almennt styðja bannið.