KR-stúlkur sigruðu á Skaganum Leikur ÍA og KR á Akranesi sem fram fór í gærkvöldi var tíðindalítill og bragðdaufur. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en KR-ingar tryggðu sér sigur með þremur mörkum í síðari hálfleik. Fyrri hálfleikur var rólegur og einkenndist af miðjuþófi.
KR-stúlkur sigruðu á Skaganum

Leikur ÍA og KR á Akranesi sem fram fór í gærkvöldi var tíðindalítill og bragðdaufur. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en KR-ingar tryggðu sér sigur með þremur mörkum í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur var rólegur og einkenndist af miðjuþófi. Reyndar brá fyrir ágætis spili úti á vellinum hjá báðum liðum en er nær dró vítateig andstæðinganna fjaraði sóknarleikurinn út. Enda fór það svo að aðeins tvö marktækifæri sáust fyrir leikhlé, Helena Ólafsdóttir fyrir KR og Silja Rán Ágústsdóttir fyrir ÍA en hvorug náði að nýta sitt færi.

Síðari hálfleikur fór af stað með miklum látum. Á 46. mínútu átti Edda Garðarsdóttir óvænt þrumuskot af löngu færi og boltinn hafnaði efst í markhorninu og gestirnir komnir yfir. Eftir þessa fjörlegu byrjun datt leikurinn aftur niður á það stig sem hann var á í fyrri hálfleik og fátt markvert gerðist þar til Olga Færseth skoraði annað mark KR-stúlkna með skalla af stuttu færi þegar átta mínútur voru eftir af leiknum. Aðeins fjórum mínútum síðar skoruðu þær aftur og nú var Sigurlín Jónsdóttir að verki með skoti frá markteig eftir hornspyrnu. Skagastúlkur náðu ekki að ógna marki gestanna á þeim fáu mínútum sem eftir voru og því öruggur KR sigur í höfn.

Jóhannes

Harðarson

skrifar