ÁSTHILDUR á kvikmyndafyrirtækið Litlu gulu hænuna, og framleiðir því sjálf myndina gerða eftir þessari geysivinsælu bók Danans Jens Sigsgaard. Eins og flestir vita fjallar hún um lítinn strák, sem dreymir um að hann sé einn í heiminum, og geti því gert allt sem hann langar til. Til að byrja með skemmtir hann sér konunglega, en smám saman fer hann að sakna foreldra sinna og vina.

Palli var einn

í heiminum

Bókina Palli var einn í heiminum hafa flestir lesið. Nú hefur Palli lifnað við í hálftíma barnamynd sem Hildur Loftsdóttir fékk að sjá. Mamma hans Palla heitir Ásthildur Kjartansdóttir.

ÁSTHILDUR á kvikmyndafyrirtækið Litlu gulu hænuna, og framleiðir því sjálf myndina gerða eftir þessari geysivinsælu bók Danans Jens Sigsgaard.

Eins og flestir vita fjallar hún um lítinn strák, sem dreymir um að hann sé einn í heiminum, og geti því gert allt sem hann langar til. Til að byrja með skemmtir hann sér konunglega, en smám saman fer hann að sakna foreldra sinna og vina. Í örvæntingu sinni flýgur hann flugvél upp í geiminn, og rekst á karlinn í tunglinu. Við það vaknar hann.

"Það var gerð dönsk mynd um Palla árið 1948, strax eftir útkomu bókarinnar. Síðan hefur mörgum komið það til hugar að gera mynd eftir þessari sögu, en hún er svolítið erfið viðureignar. Það að láta aðeins einn leikara halda upp heilli mynd, þar að auki barn, er mjög sjaldan gert. Við bættum því við hlutverki karlsins í tunglinu, sem Karl Guðmundsson tók að sér.

Upptökur stóðu í átján nætur

Kvikmyndarétturinn á bókinni var lengi hjá Íslendingum, sem ekkert varð úr verki áður en rétturinn rann út. Svo datt Jakobi manninum mínum í hug að gera mynd eftir bókinni. Hann er danskur en hafði ekki hugmynd um tilvist gömlu myndarinnar," sagði Ásthildur.

Upptökur fóru fram sl. sumar, og stóðu í átján nætur, sem er heldur langt fyrir 25 mínútna langa mynd.

"Það var mikið lagt á Véstein Sæmundsson, sjö ára aðalleikara, en hann stóð sig alveg ótrúlega vel. Ef foreldrar hans hefðu ekki verið svona samvinnuþýðir þá veit ég ekki hvernig hefði farið. Hann er mikil hetja. Við prófuðum marga stráka, en hann var bestur," sagði Ásthildur.

Erfitt að borða sælgæti

Vésteini sjálfum fannst mjög gaman að leika í kvikmynd.

"Erfiðast var að borða allt þetta sælgæti. Þórunn sem sá um mig meðan á tökum stóð tók það stundum út úr mér, svo að ég yrði ekki alveg veikur," sagði Vésteinn í viðtali við Morgunblaðið. Í myndinni flaug Vésteinn flugvél og Vésteinn eldaði mat, en þegar hann verður stór, ætlar hann að verða smiður eins og pabbi sinn.

Um leikmyndina sá Ólafur Engilbertsson.

"Myndin var tekin í Reykjavík á miðju sumri, og við urðum því að taka á nóttunni til að geta tæmt allar götur. Í bókinni kemur fyrir sporvagn en við notuðum strætisvagn, og þannig urðum við að íslenska aðstæður. Þetta fólst mikið í því að hafa útlitið sem einfaldast þannig að þau atriði sem fanga athygli Palla, vekji einnig mesta athygli áhorfenda.

Við byggðum leikmynd í Réttarholtsskólanum, og vorum þar í innitökum. Þar voru t.d. tunglatriðin tekin, en í þeim er einnig notast við tölvugrafík. Um útfærsluna á henni sá Kristín María Ingimarsdóttir.

Börn eiga að geta sett sig í spor Palla

Hið draumkennda útlit hönnuðum við með lýsingunni. Sigurður Sverrir Pálsson var tökumaður og sá um lýsinguna. Í samvinnu reyndum við að sýna með bliki inn um gluggana að það er á mörkum draums og veruleika þegar hann vaknar," sagði Ólafur.

Margir aðilar veittu fjármagn til myndarinnar, auk þess sem hún fékk styrki frá ýmsum kvikmyndasjóðum, s.s. þeim íslenska, þeim norræna, einum þýskum og evrópska sjóðakerfinu Media. RÚV og Norska sjónvarpið hafa þegar keypt sýningarréttinn.

Ásthildur er hæst ánægð með árangurinn og á frumsýningunni var myndinni mjög vel tekið.

"Ef myndin virkar sálfræðilega á krakka og þeir geta sett sig í spor Palla, þá finnst mér allt hafa fengist," sagði Ásthildur.

Næst á dagskrá hjá henni er að setja enskan texta á myndina og reyna að koma henni í sölu.

"Myndin er mjög auðveld upp á erlendan markað. Það er svo lítið um samtöl í myndinni og því er svo auðvelt að talsetja hana fyrir erlend börn," bendir Ásthildur á. "Það eru haldnar margar góðar barnakvikmyndahátíðir sem einnig væri gaman að senda myndina á," segir hún að lokum.

Morgunblaðið/Þorkell NOKKRIR aðstandendur Palla: f.v. Álfheiður Bjarnadóttir með mömmu sinni Ástu Hrönn Stefánsdóttur framkvæmdastjóra, Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri og framleiðandi, Ólafur Engilbertsson leikmyndahönnuður, Jóhannes Eyfjörð aðstoðarmaður leikmyndahönnuðar, Marteinn Steinar Þórisson aðstoðarleikstjóri og skrifta, Júlía Embla Katrínardóttir aðstoðartökumaður, Margrét Benediktsdóttir förðunarmeistari og Örn Marinó Arnarson ljósameistari ásamt dóttur sinni Birtu Sif. Ljósmynd/Karl Lillendahl

PALLI eldar hafragraut.

PALLI fer í flugferð.