NÆSTÆÐSTI maður Dai-ichi Kangyo banka (DKB), Ichiro Fujita, sem gegndi starfi aðalbankastjóra um tíma, og annar yfirmaður bankans hafa verið handteknir vegna gruns um að hafa veitt fjárkúgara ólögleg lán.
Næstæðsti maður DKB handtekinn



Tókýó. Reuter.

NÆSTÆÐSTI maður Dai-ichi Kangyo banka (DKB), Ichiro Fujita, sem gegndi starfi aðalbankastjóra um tíma, og annar yfirmaður bankans hafa verið handteknir vegna gruns um að hafa veitt fjárkúgara ólögleg lán.

Þar með hafa 10 háttsettir menn DKB verið handteknir vegna sambands við fjárkúgara sem hóta að hleypa upp hluthafafundum. Hneykslið snertir einnig stærsta verðbréfafyrirtæki Japans, Nomura Securities Co Ltd, þar sem fimm hafa verið handteknir. Fjárkúgarinn hefur einnig verið handtekinn. Helmingur 40 manna bankastjórnar DKB hefur sagt af sér.

Í rannsókn eru 39 aðskilin lán upp á 8.8 milljarða jena alls, sem fyrirtæki tengt DKB, Daiwa Shinyo, mun hafa veitt Yoshinori Koike, yngri bróður Ryuichi Koike, fjárkúgara, sem er höfuðpaurinn í málinu.