MIG LANGAR að víkja nokkrum orðum að líðan íslenskra ungmenna vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af henni. Ég starfa sem félagsráðgjafi og námsráðgjafi við Menntaskólann við Sund, þar sem ég sinni bæði námsráðgjöf og félagsráðgjöf við nemendur skólans. Stöðuheiti mitt er námsráðgjafi en í raun fæst ég ekki síður við félagsráðgjöf.
Líðan íslenskra ungmenna Ástæðurnar fyrir því að ungt fólk lendir í vanda, segir Guðrún H. Sederholm, geta verið margvíslegar og umdeilanlegar. MIG LANGAR að víkja nokkrum orðum að líðan íslenskra ungmenna vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af henni. Ég starfa sem félagsráðgjafi og námsráðgjafi við Menntaskólann við Sund, þar sem ég sinni bæði námsráðgjöf og félagsráðgjöf við nemendur skólans. Stöðuheiti mitt er námsráðgjafi en í raun fæst ég ekki síður við félagsráðgjöf. Það væri mikil einföldun að halda því fram að nemendur framhaldsskólanna þyrftu einungis ráðgjöf varðandi námið. Sannleikurinn er sá að vandi nemendanna er margbreytilegur og námsráðgjöfin sem slík dugar ekki þegar um félagslegan ­ fjárhagslegan ­ og geðrænan vanda er að ræða, þá þarf annars konar ráðgjöf. Nemandi sem kemur til námsráðgjafa vegna einbeitingarerfiðleika, kemur með nafn á einkennum en ekki niðurstöðu. Greiningarvinnan hefst og eftir nokkur viðtöl fæst niðurstaða um hvað gera skuli, oftar en ekki þarf að vísa nemandanum á sérfræðiþjónustu sem fæst hjá einstaklingum eða stofnunum. Það er einmitt greiningarvinnan sem ég ætla að gera að meginumræðuefni þessarar greinar og þær upplýsingar sem ég fæ um líðan íslenskra ungmenna þegar ég er að vinna hana.

Flókið samfélag

Ég fullyrði að ungu fólki finnist samfélagið flókið og að það eigi oft erfitt með að fóta sig í því. Þessi fullyrðing er sett fram til að spara rými og byggist á reynslu minni af viðtölum við ungt fólk. Þetta þýðir að ungt fólk lendir í aðstæðum sem það ræður ekki við og þá skapast vandamál. Þessi vandamál þarf að leysa og þess vegna kemur unga fólkið til mín. Hjá mér er því heitið trúnaði og það skiptir oft sköpum. Ástæðurnar fyrir því að ungt fólk lendir í vanda geta verið margvíslegar og umdeilanlegar. Ég geri þær ekki að umtalsefni þessarar greinar. Eins og áður er getið skiptir trúnaðurinn við ungmennið miklu máli og ég hef í því sambandi miklar áhyggjur af hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár, hvað þetta varðar. Ég er oft eina fullorðna manneskjan sem ungmennið treystir fyrir vandamálum sínum og saman tekst okkur að vinna úr þeim. Ef leita þarf samþykkis foreldra til þess að viðtöl við ungmenni á aldrinum 16­18 ára fari fram þá líst mér ekki á blikuna. Það skal tekið fram að í fjölmörgum málum er höfð samvinna við foreldra en þá með samþykki viðkomandi ungmennis. Afdráttarlaus forræðishyggja er ekki af hinu góða þegar ungt fólk er annars vegar. Reglur samfélagsins eru nógu flóknar fyrir. Röksemdirnar fyrir því að hækka sjálfræðisaldurinn eru að mínu mati ekki byggðar á hagsmunum unga fólksins heldur á samviskubiti fullorðna fólksins yfir því hvernig komið er fyrir sumu ungu fólki. Lausnin á vanlíðan margra ungmenna er ekki sú að hækka sjálfræðisaldurinn. Árangursríkara væri að mínu mati að gaumgæfa orsakir þess að ungu fólki líður ekki vel. Það þarf hins vegar töluvert hugrekki til þess og ég er ekki viss um að það sé fyrir hendi í íslensku samfélagi, þess vegna er gripið til breytinga á lögum.

Veruleikinn

Ég minntist á greiningarvinnuna í ráðgjöfinni í inngangsorðum mínum. Hún er veigamesti þátturinn í ráðgjöfinni, á henni byggist málsmeðferðin öll. Mikilvægast er að nálgast vandann á kerfisbundinn hátt og skoða alla tiltæka þætti sem tengjast aðstæðum nemandans og skapa þannig heildarsýn sem skerpir skilning ráðgjafans og glöggvar orsakasamhengi með nemandanum.

Nemendur í Menntaskólanum við Sund voru u.þ.b. 830 síðastliðinn vetur. Viðtöl í námsráðgjöfinni voru 1.006. Heldur fleiri stúlkur leituðu ráðgjafar en piltar. Viðtölin skiptust þannig að 525 viðtöl féllu undir námsráðgjöf en 481 féll undir persónulega ráðgjöf. Þetta sýnir vilja nemenda til þess að leita sér ráðgjafar og mikilvægi þess að ráðgjöfin sé unnin á faglega styrkum forsendum. Í persónulegu ráðgjöfinni fást afdráttarlausar upplýsingar um líðan nemenda og þau vandamál sem hindra námsgengi og vellíðan þeirra. Nemendur koma vegna samskiptaerfiðleika heima fyrir, depurðar, kvíða, sjálfsvígshugleiðinga, nauðgana, fjárhagserfiðleika, fóstureyðinga, vímuefnaneyslu, fátæktar og annarra erfiðleika sem of langt mál yrði upp að telja í stuttri grein. Uppeldisleg ráðgjöf við foreldra er nokkuð stór þáttur af vinnu minni í ráðgjöfinni. Samvinna við sérfræðinga er gífurlega mikilvæg. Ekki er nóg að vísa nemandanum á tiltekinn sérfræðing eða stofnun. Það þarf að tryggja það að sérfræðiþjónustan skili sér og þegar best tekst til er samvinna ráðgjafa og sérfræðings farsælasta leiðin til þess að taka á vandanum. Valgerður Baldursdóttir, yfirlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hefur veitt hóp námsráðgjafa handleiðslu sl. tvo vetur við greiningu á geðrænum vanda nemenda og hefur sú handleiðsla verið ómetanleg. Valgerður hefur sagt starfi sínu lausu af ástæðum sem tilgreindar hafa verið í fjölmiðlum og vísa ég enn og aftur til þess kjarkleysis sem við blasir þegar málefni barna ­ og ungmenna eru til umræðu.

Lokaorð

Við sem störfum með ofangreindum hætti að málefnum ungs fólks, heyrum hvað klukkan slær en berjumst sífellt við heyrnarlaust forræðishyggjufólk sem skortir kjark til þess að viðurkenna hvað tímanum líður og tekur þess vegna rangar ákvarðanir á eigin forsendum.

Vandi íslenskra ungmenna er verulegur og það þarf að horfast í augu við þá staðreynd með því að skapa þeim viðunandi uppvaxtar- og vinnuskilyrði sem leiða til lífslöngunar og þess að vilja og geta tekið á sig ábyrgð. Að ráðskast með ungt fólk í stað þess að hlusta á það og leiðbeina því felur í sér skilaboð um að skoðanir þess og ákvaðanir séu einskis metnar. Þó er stöðugt vísað til þess að æskan sé ábyrgðarlaus. Það þarf að kenna ungu fólki að taka ákvarðanir, annars getur það ekki gert það, leiðin til þess er ekki að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár og hindra þar með að ungt fólk á þessum aldri leiti sér ráðgjafar vegna þess að það verður ekki hægt að heita því fullum trúnaði. Gleðilegt sumar.

Höfundur er félagsráðgjafi og námsráðgjafi í Menntaskólanum við Sund. Guðrún H. Sederholm