Lokun 25 af 150 verksmiðjum Electrolux, 50 geymsluhúsa og uppsagnir 12 þúsund starfsmanna næstu árin lyfti verði hlutabréfa fyrirtækisins strax upp á við, þegar Michael Treschow, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, tilkynnti um þennan mesta niðurskurð, sem norrænt fyrirtæki gengur í gegnum.
Electrolux sker niður Einn mesti niðurskurður sem beitt hefur

verið í norrænu fyrirtæki Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. Lokun 25 af 150 verksmiðjum Electrolux, 50 geymsluhúsa og uppsagnir 12 þúsund starfsmanna næstu árin lyfti verði hlutabréfa fyrirtækisins strax upp á við, þegar Michael Treschow, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, tilkynnti um þennan mesta niðurskurð, sem norrænt fyrirtæki gengur í gegnum. Treschow tók við starfinu fyrir mánuði og ljóst að hann var ráðinn til að hrinda í framkvæmd uppstokkun fyrirtækisins, sem ekki hefur verið hróflað við lengi. Samfara niðurskurðinum verður skipulag fyrirtækisins einfaldað, auk þess sem stefnt er að betri framleiðslunýtingu og hnitmiðaðri framleiðslu. Kostnaðurinn er áætlaður um 2,5 milljarðar sænskra króna, en reiknað með að hann skili sér strax á næsta ári. Ekki skilað áætluðum afrakstri undanfarin ár

Niðurskurður til að auka framleiðni eins og nú er gert í Electrolux hefur farið eins og alda yfir bandarísk fyrirtæki undanfarinn áratug og er nú að skila sér til Evrópu. Undanfarin ár hefur Electrolux ekki skilað áætluðum afrakstri og aðgerðirnar nú má túlka sem gagnrýni á Leif Johansson, fráfarandi forstjóra, sem nýlega tók við starfi framkvæmdastjóra Volvo. Lokun verksmiðjanna miðar að því að þjappa framleiðslunni saman. Með samþjöppun og fækkun starfsfólks er stefnt að því að ná aukinni framleiðni og um leið meiri afrakstri. 11% af 100 þúsund starfsmönnum sagt upp

Af 150 verksmiðjum Electrolux um allan heim eru 33 í Bandaríkjunum og 95 í Evrópu, þar af 25 í Svíþjóð. Alls vinna um hundrað þúsund manns hjá Electrolux, svo um er að ræða uppsögn ellefu prósenta starfsfólks. Ekki hefur verið tilkynnt hvaða verksmiðjum verði lokað, en þar sem meðal annars er stefnt að jöfnun landfræðilegrar dreifingar framleiðslunnar má ætla að niðurskurðurinn bitni mjög á starfseminni í Evrópu og þá ekki síst í Svíþjóð. Þar sem atvinnuleysi er þrettán prósent í Svíþjóð verður ekki hjá því komist að niðurskurðurinn þar verði pólitískt hitamál og blandist inn í deilur um aðstæður fyrirtækja í Svíþjóð er staðið hafa undanfarið.