Leikstjóri: Randall Miller. Handrit: Christopher Reed og Cynthia Carle. Aðalhlutverki: Marlon Wayans, Kadeem Hardison, Kevin Dunn, Michael Michele. Touchstones. 1997. KÖRFUBOLTAMYNDIN Körfudraugurinn segir af tveimur ungum bræðrum í háskólakörfubolta, sem þykja geysilega efnilegir. Annar þeirra fær hjartaáfall og deyr þegar komið er í hina miklu úrslitakeppni myndarinnar.

Draugur

í liðinu

KVIKMYNDIR

Sambíóin Álfabakka

KÖRFUDRAUGURINN "THE SIXTH MAN"

Leikstjóri: Randall Miller. Handrit: Christopher Reed og Cynthia Carle. Aðalhlutverki: Marlon Wayans, Kadeem Hardison, Kevin Dunn, Michael Michele. Touchstones. 1997.

KÖRFUBOLTAMYNDIN Körfudraugurinn segir af tveimur ungum bræðrum í háskólakörfubolta, sem þykja geysilega efnilegir. Annar þeirra fær hjartaáfall og deyr þegar komið er í hina miklu úrslitakeppni myndarinnar. Hann hverfur þó ekki alveg liðinu því hann draugast inni á vellinum með félögum sínum og gerir andstæðingum þeirra margan grikkinn og tryggir gott gengi liðsins í keppninni. Allt er það stórsniðugt í fyrstu en á bróður hans og aðra liðsmenn renna tvær grímur eftir því sem lengra líður því þeir eru heiðarlegir körfuboltamenn og þeim finnst svindl að hafa draug í liðinu, sem einatt tryggir þeim sigur.

Körfudraugurinn er, þrátt fyrir hið sviplega dauðsfall í upphafi, hreinræktuð gamanmynd en hún er, vegna hins sviplega dauðsfalls, hreinræktuð vellumynd líka. Þetta tvennt fer illa saman því eina stundina áttu að brosa út að eyrum en hina að bresta í grát og myndin á mjög í vandræðum með að sameina þetta tvennt. Gamanið snýst allt um það hvernig bróðirinn, sem einn sér drauginn, er sífellt að rífast út í loftið og umfaðma sjálfan sig og leikirnir eru einnig talsvert skrípó þar sem draugsi ræður ferðinni og boltinn fer hinar undarlegustu leiðir ofan í körfuna. Þar koma nokkrar tölvubrellur við sögu.

Körfudraugurinn er oft talsvert frískleg mynd þökk sé leikaranum Marlon Wayans, sem leikur bróðurinn af þessum heimi og er hvergi að spara við sig í fettum og grettum. En mestmegnis er hér um auðgleymt kvikmyndafóður að ræða.

Velluþátturinn er einfaldlega of fyrirferðarmikill innan gamanmyndarinnar. Höfundarnir gera talsvert í því að búa til tregafullar minningar frá æskudögum drengjanna og tengsl við föður þeirra og hvernig þeir standa saman að eilífu og allt er það málað rósrauðum og væmnum litum. Þess á milli er Körfudraugurinn nánast eins og teiknimynd.

Fyrir áhugamenn um körfubolta er kannski eftir einhverju að slægjast enda myndin aðallega gerð með þá í huga.

Arnaldur Indriðason