FÓSTURSKÓLI Íslands útskrifaði 101 leikskólakennara hinn 31. maí sl. 66 luku 3 ára starfsnámi og 35 af fjarnámsbraut. 17 leikskólakennarar luku 1 árs framhaldsnámi. Þar var viðfangsefnið skapandi starf og megináhersla lögð á tónlist og myndlist. Fósturskóli Íslands varð 50 ára í október sl. Fjórir nemendur hlutu verðlaun fyrir mjög góðan námsárangur.
Brautskráning Fósturskóla Íslands

Mikill skortur á leikskólakennurum um allt land

FÓSTURSKÓLI Íslands útskrifaði 101 leikskólakennara hinn 31. maí sl. 66 luku 3 ára starfsnámi og 35 af fjarnámsbraut. 17 leikskólakennarar luku 1 árs framhaldsnámi. Þar var viðfangsefnið skapandi starf og megináhersla lögð á tónlist og myndlist. Fósturskóli Íslands varð 50 ára í október sl.

Fjórir nemendur hlutu verðlaun fyrir mjög góðan námsárangur. Gréta Gísladóttir og Marta Dögg Sigurðardóttir af 3 ára námsbraut, Jakobína Elín Áskelsdóttir af fjarnámsbraut og Linda Björk Ólafsdóttir úr framhaldsdeild.

Í ræðu Gyðu Jóhannsdóttur skólastjóra kom fram að nú væru mikil tímamót í sögu leikskólakennaramenntunar. Skólastjóri reifaði frumvarp til laga um kennara- og uppeldisháskóla sem Björn Bjarnason menntamálaráðherra lagði fyrir Alþingi nú í vor. Með samþykkt þessa frumvarps færist menntun leikskólakennara endanlega á háskólastig. Skólastjóri taldi góða sátt ríkja um frumvarpið. Sú mennturn sem Fósturskólinn veitir hefur færst nær háskólastigi á síðasta áratug og er viðurkennd sem slík. Skólinn býður nú upp á 90 eininga nám sem lýkur með B.ed prófi. Í ræðu skólastjóra var einnig vikið að miklum skorti á leikskólakennurum um allt land og húsnæðisvanda skólans.

Fulltrúar afmælisárganga fluttu ávörp og færðu skólanum góðar gjafir. Fyrir hönd 30 ára afmælisárgangs flutti Ragnheiður Helgadóttir ávarp, Hildur Skarphéðinsdóttir talaði fyrir hönd 25 ára árgangs, fyrir 20 ára afmælisárgangs talaði Jóhanna Thorsteinsson og loks flutti Kristín Pálsdóttir ávarp þeirra sem útskrifuðust fyrir 10 árum.

Skólakórinn söng við athöfnina. Einsöng með kórnum söng Þórunn Guðmundsdóttir, sópransöngkona og tónmenntakennari við framhaldsdeildina, við undirleik Kristins Arnars Kristinssonar. Að lokum fluttu fulltrúar brautskráðra kveðjuávarp til skólans. Fyrir hönd nemenda á 3 ára námsbraut flutti Jónína Þórarinsdóttir ávarp, fyrir hönd fjarnámsdeildar Aðalheiður Sigþórsdóttir og fyrir hönd framhaldsdeildar Kristín Ólafsdóttir.

ÚTSKRIFTARHÓPUR Fósturskóla Íslands í Háskólabíói.