ÞVÍ miður er það staðreynd að mörg alvarleg umferðarslys hér á landi má rekja til þess að börn voru laus í bílum. Ennfremur slasast mörg börn vegna þess að ekki var notaður réttur öryggisbúnaður eða þá að hann var ranglega notaður. Þegar talað er um að öryggisbúnaður sé ekki rétt notaður er átt við eftirfarandi: 1.
Barn sem situr laust í bíl er í mikilli hættu

Margréti Sæmundsdóttur:

ÞVÍ miður er það staðreynd að mörg alvarleg umferðarslys hér á landi má rekja til þess að börn voru laus í bílum. Ennfremur slasast mörg börn vegna þess að ekki var notaður réttur öryggisbúnaður eða þá að hann var ranglega notaður. Þegar talað er um að öryggisbúnaður sé ekki rétt notaður er átt við eftirfarandi:

1. Lítil börn eiga að sitja í barnabílstól sem snýr baki í akstursstefnu. Höfuð níu mánaða barns er fjórðungur af líkamsþyngd þess. Álag á háls og höfuð barns verður því mikið í árekstri. Á sama tíma og 30%­40% fullorðinna sem slasast í umferðarslysum hljóta höfuðmeiðsl hljóta 80% ungra barna höfuðmeiðsl eða skaddast í andliti samkvæmt sænskum rannsóknum. Barn sem situr í barnabílstól sem snýr öfugt við aksturstefnu er eins vel varið og hægt er.

2. Barnabílstóll eða bílpúði er ekki festur samkvæmt leiðbeiningum. Áríðandi er að kynna sér vel leiðbeiningar um notkun öryggisbúnaðar.

3. Mörg börn hætta of snemma að nota barnabílstól þ.e. þau eru of létt þegar þau eru látinn á bílpúða. Öryggisbúnaður er miðaður við þyngd barnsins, eftir því á að fara.

4. Æskilegra er að bílpúðinn sé með baki sérstaklega í bílum þar sem ekki eru höfuðpúðar. Áríðandi er að bílbeltið liggi á mjöðmum en ekki á maga.

5. Alltaf á að nota bílpúða með þriggja festu bílbelti og áríðandi er að hann sé festur við bílbeltið. Ranglega notað bílbelti getur slasað barn í árekstri. Ef sá hluti beltisins sem á að liggja yfir brjóstið er settur aftur fyrir bak barnsins eða undir handlegg er búið að eyðileggja varnarmöguleika beltisins. Þverband bílbeltisins gerir það að verkum að höggið dreifist á allan líkamann. Ef þverbandið er það eina sem heldur barninu kastast það fram af miklu afli og fær högg á kviðarhol og neðri hluta hryggjar. Hafa verður í huga að innri líffæri eru ekki eins vel varin hjá ungum börnum og fullorðnum. Þar af leiðandi þarf barn minna högg til þess að fá innvortis meiðsl en fullorðin.

6. Ekki er ráðlegt að láta barn nota bílbelti án bílpúða fyrr en barnið er a.m.k. 140 sm á hæð. Hafa verður í huga að bílbeltið er hannað fyrir fullorðið fólk það veitir því börnum ekki nægjanlega vernd án bílpúða.

7. Loftpúðar í bílum eru mikilvæg öryggistæki fyrir fullorðna. Börn (sem ekki hafa náð 140 sm hæð) mega hins vegar aldrei sitja í sæti sem búið er loftpúða hvorki í barnabílstól eða bílbeltum.

8. Ekki þarf mikinn árekstur til þess að lausir munir kastist á þá sem í bílnum eru. Vitað er um mörg tilvik þar sem farangur eða annað laust dót t.d. skíðaskór hafa kastast af miklu afli á farþega og ökumenn við árekstur og valdið alvarlegum slysum.

MARGRÉT SÆMUNDSDÓTTIR,

fræðslufulltrúi Umferðarráðs.