Sölustarfsemi í síma er farinn að ganga úr hófi. Víkverja er kunnugt um, að fyrir skömmu fengu nokkrir einstaklingar upphringingu frá bókaforlagi Iðunnar, þar sem þeim var tilkynnt, að þeim yrði færð bók að gjöf og spurt, hvort heimsækja mætti viðkomandi með bókagjöfina. Þess var ekki getið að skilmálar fylgdu gjöfinni.
Sölustarfsemi í síma er farinn að ganga úr hófi. Víkverja er kunnugt um, að fyrir skömmu fengu nokkrir einstaklingar upphringingu frá bókaforlagi Iðunnar, þar sem þeim var tilkynnt, að þeim yrði færð bók að gjöf og spurt, hvort heimsækja mætti viðkomandi með bókagjöfina. Þess var ekki getið að skilmálar fylgdu gjöfinni.

Þegar sendiboði kom með gjöfina kom í ljós, að hún var háð skilyrðum. Sá sem átti að fá bókargjöfina varð að kaupa bækur frá forlaginu fyrir a.m.k. sex þúsund krónur. Þar fyrir utan voru gjafabækurnar ekki merkilegar bækur.

Hvað á svona sölustarfsemi að þýða? Það er sjálfsagt ekki hægt að koma í veg fyrir, að hringt sé í hús og vörur boðnar til sölu en það er lágmarkskrafa, að blekkingar séu ekki hafðar uppi til þess að fá fólk til að tala við sölumanninn.



Nokkrum mínútum eftir að sölu maður bókaforlagsins hafði yfirgefið einn ofangreindra viðskiptavina hringdi síminn. Ung stúlka kynnti sig og kvaðst hringja á vegum Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka hf. og spurði hvort viðmælandi hennar hefði fengið bréf frá fyrirtækinu með tilboði um kaup á verðbréfum. Viðmælandinn kannaðist við það. Stúlkan sagði þá, að hún hringdi til þess að kynna þau greiðslukjör sem væru í boði. Þegar það boð að hlusta á greiðslukjörin var afþakkað var því vel tekið og samtalinu slitið.

Innan við mínútu síðar hringdi síminn aftur og enn var hringt frá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka hf. Að þessu sinni var spurt um annan einstakling á viðkomandi heimili í sama tilgangi.

Er ekki nóg komið af þessu? Er ekki tímabært að prófa aðrar söluaðferðir? Víkverji verður þess var að þessi sölumennska í síma inn á heimili fólks að kvöldlagi mælist misjafnlega fyrir. Og sumir segja, að í einstaka tilvikum hagnýti fólk sér það að eldra fólk ekki sízt eigi erfitt með að segja nei.



Fjölskyldu- og húsdýragarður inn í Laugardal er einhver bezt heppnaða framkvæmd Reykjavíkurborgar á seinni árum. Öll uppbygging garðsins og starfræksla er til sérstakrar fyrirmyndar. Raunar er Laugardalurinn allur að verða lítill gimsteinn í höfuðborginni, því að auk ofangreinds er grasagarðurinn þar og svo að sjálfsögðu íþróttavellir og Laugardalslaugin.