BREIÐABLIK og KR eru enn á toppi efstu deildar kvenna eftir leiki helgarinnar en Blikar halda toppsætinu með glæsilegu markahlutfalli ­ hafa skorað 23 mörk en fengið á sig fjögur. KR vann ÍA 3:0 á Akranesi og í Eyjum bar Stjarnan sigurorð af heimastúlkum, 2:1. Blikastúlkur sóttu af krafti frá byrjun og uppskáru fyrsta markið frá fyrirliðanum Sigrúnu Óttarsdóttur á 19.
KNATTSPYRNA

Breiðablik og

KR á sigurbraut

BREIÐABLIK og KR eru enn á toppi efstu deildar kvenna eftir leiki helgarinnar en Blikar halda toppsætinu með glæsilegu markahlutfalli ­ hafa skorað 23 mörk en fengið á sig fjögur. KR vann ÍA 3:0 á Akranesi og í Eyjum bar Stjarnan sigurorð af heimastúlkum, 2:1.

Blikastúlkur sóttu af krafti frá byrjun og uppskáru fyrsta markið frá fyrirliðanum Sigrúnu Óttarsdóttur á 19. mínútu eftir mörg ágæt tækifæri. Haukastúlkur vörðust og tókst einnig að skora á 33. mínútu með marki Halldóru Hálfdánardóttur en Kristrún L. Daðadóttir kom Breiðabliki aftur yfir fimm mínútum fyrir leikhlé. Blikar slógu hvergi af eftir hlé, Margrét Ólafsdóttir skaut í stöng og skömmu síðar gerðu Hafnfirðingar sjálfsmark. Á 58. mínútu prjónaði Margrét sig í gegnum vörn Hauka og renndi boltanum á Erlu Hendriksdóttur sem skoraði fjórða mark Kópavogsbúa og þremur mínútum síðar skoraði Erla beint úr hornspyrnu. Öðrum þremur mínútum síðar skoraði Hildur Ólafsdóttir sitt fyrsta mark í deildinni og sjötta mark Blika og Katrín Jónsdóttir það sjöunda en Haukastúlkur ráku sjálfar endahnútinn með öðru sjálfsmarki.

Blikastúlkur ætluðu sér um of við markaskorunina til að byrja með en náðu síðan að sýna hvað þær kunna fyrir sér. Þær léku án Ásthildar Helgadóttur og Sigfríðar Sophusdóttur, sem voru í fríi. Margrét Ólafsdóttir var allt í öllu hjá liðinu en Kristrún L. Daðadóttir og Katrín Jónsdóttir voru ágætar. Haukastúlkur héldu uppi góðum vörnum lengi vel en það tekur sinn toll að halda í við leikreynt lið eins og Breiðablik og því gáfu þær eftir þegar á leið. Gréta R. Árnadóttir markvörður og Hanna G. Stefánsdóttir áttu góðan leik fyrir Hafnfirðinga.

Stíflan brast eftir hlé

Eftir frekar tíðindalítinn fyrri hálfleik hjá Val og ÍBA að Hlíðarenda á sunnudaginn, brast stíflan strax eftir hlé og sjö mörk litu dagsins ljós. Af þeim gerðu Valsstúlkur fjögur en gestir þeirra frá Akureyri þrjú og unnu Valsstúlkur þar með þriðja sigur sinn í sumar.

Fyrir hlé var baráttan mikil og Valur lengst af í sókn án þess þó að skapa mikla hættu við mark gestanna, sem sjálfum tókst aldrei að komast í tæri við mark Vals. Á fjórðu mínútu síðari hálfleiks kom fyrsta markið þegar Írís Andrésdóttir skoraði fyrir Val eftir góða fyrirgjöf Rósu J. Steinþórsdóttur og tveimur mínútum síðar bætti Ásgerður H. Ingibergsdóttir við. Stundarfjórðungi síðar stakk Katrín M. Hjaltadóttir vörn Vals af og minnkaði muninn í 2:1 með góðu marki. Tíu mínútum síðar, á 75. mínútu, var Bergþóra Laxdal felld inni í vítateig ÍBA, svo að dæmd var vítaspyrna sem Bergþóra sjálf skoraði úr og fimm mínútum síðar braust hún í gegnum vörn ÍBA og kom Val í 4:1. En Akureyringar voru ekki búnir að segja sitt síðasta og þegar fimm mínútur voru til leiksloka minnkaði Þorbjörg Jóhannsdóttir muninn í 4:2 og rétt á eftir kom Katrín með annað mark með glæsilegu þrumuskoti utan vítateigs. Akureyringar gerðu sér þá grein fyrir því að mögulegt væri að ná að minnsta kosti jafntefli en Valsstúlkur gáfu ekkert eftir og héldu sínum hlut.

Morgunblaðið/Ásdís ÍRÍS Andrésdóttir braut ísinn með fyrsta marki Vals í 4:3 sigri á Akureyringum á laugardaginn. Hér er hún að kljást við Brynhildi Smáradóttur. Stefán

Stefánsson

skrifar