GEORGE Lucas hefur að sögn beðið Steven Spielberg um að leikstýra væntanlegri Stjörnustríðsmynd númer tvö. Lucas er nú á fullu að undirbúa tökur á mynd eitt sem hann ætlar að leikstýra sjálfur en hann ætlar ekki að leikstýra númer tvö og þrjú. Lucas hafði sama háttinn á með fyrstu þrennuna.

Kvikmyndafréttir

GEORGE Lucas hefur að sögn beðið Steven Spielberg um að leikstýra væntanlegri Stjörnustríðsmynd númer tvö. Lucas er nú á fullu að undirbúa tökur á mynd eitt sem hann ætlar að leikstýra sjálfur en hann ætlar ekki að leikstýra númer tvö og þrjú. Lucas hafði sama háttinn á með fyrstu þrennuna. Hann leikstýrði mynd fjögur en lét öðrum leikstjórum það eftir fyrir myndir fimm og sex.

Sandra Bernhard og Kristy Swanson ætla að leika saman í "Lover Girl". Myndin fjallar um stúlku sem leitar á náðir hóps nuddkvenna þegar móðir hennar yfirgefur hana. Kvikmyndaleikstjórinn Allison Anders framleiðir myndina.

Renny Harlin og Sylvester Stallone ætla að gera aðra spennumynd saman, sem ber titilinn "Frequency", en þeir félagar unnu seinast saman að "Cliffhanger". "Frequency" fjallar um lögreglumann sem leitar að morðingja móður sinnar á sama tíma og hann reynir að koma í veg fyrir dauða föður síns.

Gamanleikarinn Mike Myers ætlar að leika tvö hlutverk í sinni næstu mynd "Just Like Me". Hann ætlar bæði að leika kvennabósa og draumastúlkuna sem hann er að eltast við.

Tökur á "Scream II" eiga að hefjast nú í sumar. Neve Campbell, Courtney Cox, og David Arquette snúa aftur í framhaldsmyndinni en þeim til aðstoðar verða Jada Pinkett, Sarah Michelle Gellar, og Jerry O'Connell .

Bruce Willis hefur víst farið fram á það að fá 25 milljónir Bandaríkjadollara fyrir að endurtaka sig eina ferðina enn sem John McClane í "Die Hard 4".

Annað vöðvabúnt Arnold Schwartzenegger stefnir að því að taka þátt í endurgerð á "The Omega Man" og leika þá hlutverkið sem Charlton Heston fór með. Ridley Scott ætlar að hefja tökur næsta vetur.

Endurgerðirnar halda áfram. Steve Martin og Diane Keaton hafa sýnt áhuga á endurgerð á gamanmyndinni "The In-Laws". Alan Arkin og Peter Falk léku aðalhlutverkin í upprunalegu útgáfunni árið 1979. Martin og Keaton hafa áður leikið saman í endurgerð á gamanmynd um brúðkaup. Það var "Father of the Bride".

Eins og sagt hefur verið frá áður ætlar Tim Burton að leikstýra "Superman Lives" með Nicholas Cage í aðalhlutverkinu. Nú er farið að spá í hverjir aðrir komi til með að leika í myndinni. Draumauppstillingin er víst Sandra Bullock sem Lois Lane, Patrick Stewart sem erkióvinurinn Brainiac, og Jack Nicholson sem snilldarlega illmennið Lex Luthor. Einnig hefur heyrst að reynt verði að fá Michael Keaton til þess að koma við sögu í hlutverki Leðurblökumannsins.

ARNOLD Schwartzenegger spennir eflaust vöðvana í "The Omega Man".