ÞANN 21. júní næstkomandi kjósa Kjalnesingar og Reykvíkingar um hvort sameina eigi sveitarfélögin. Mér finnst valið auðvelt fyrir okkur Kjalnesinga. Eftir sameiningu við Reykjavík munum við áfram njóta þess að búa í sviptivindum og stillum undir Esjunni, í nágrenni við opið haf og iðjagræn tún.
Sameining eða stöðnun

Fáir hafa hag af óbreyttu ástandi á Kjalarnesi. Guðfinna Helgadóttir tíundar hér þá kosti sem fylgja því að sameinast Reykjavík. ÞANN 21. júní næstkomandi kjósa Kjalnesingar og Reykvíkingar um hvort sameina eigi sveitarfélögin. Mér finnst valið auðvelt fyrir okkur Kjalnesinga. Eftir sameiningu við Reykjavík munum við áfram njóta þess að búa í sviptivindum og stillum undir Esjunni, í nágrenni við opið haf og iðjagræn tún. Til viðbótar fáum við þá kosti sem fylgja traustum efnahag og faglegri stjórnsýslu sameinaðs sveitarfélags.

Sjálfstæði hins skulduga

Fjármálum Kjalarneshrepps er svo komið að ef ekki verður sameining bíða Kjalnesinga minnst sjö mögur ár, tímabil stöðnunar í framkvæmdum og þjónustu. Það er langur tími í lífi einnar manneskju, ekki síst barns á þroskaskeiði. Ég get ekki sætt mig við að þurfa að senda börnin mín í grunnskóla sem er í fjársvelti, að búa við skerta leikskólaþjónustu og ófullkomnar almenningssamgöngur, að sjá engar opinberar framkvæmdir nema lágmarks viðhald opinberra eigna ­ til þess eins að geta kallast sjálfstætt sveitarfélag. Verði sameining felld bendir flest til að sjálfstæði Kjalarneshrepps verði ekki nema orðin tóm næstu árin; sá sem er í skuldafangelsi og fjárhagslegri gjörgæslu er hvorki sjálfstæður né frjáls.

Skóli í fjársvelti

Ég á tvö börn í Klébergsskóla, hef verið þar stundakennari og tel mig þekkja nokkuð til. Þrátt fyrir nýbyggingu er svo komið að skólann skortir húsnæði. Þessi ágæta stofnun er farin að líða fyrir fjárskort og útlitið ekki bjart að óbreyttu. Margir foreldrar nemenda í Klébergsskóla hafa áhyggjur af því að skólinn dragist aftur úr og að erfitt verði að fá hæfa kennara til starfa hjá fjárhagslega völtu sveitarfélagi.

Verði af sameiningu mun Klébergsskóli njóta stuðnings fræðslustofnana Reykjavíkur. Því er heitið að eftir sameiningu verði byggðar sjö nýjar kennslustofur á næstu tveimur árum og húsnæðisþörf skólans þannig fullnægt. Sameining mun því stuðla að traustu skólastarfi og að áfram verði gott starfsfólk í Klébergsskóla.

Leikskólaþjónusta

Ég á dreng í leikskólanum Kátakoti. Hann þurfti að bíða til tveggja og hálfs árs aldurs áður en hann fékk þar skólavist. Skólinn er ekki opinn nema frá kl. 8 að morgni og til klukkan 14.30. Margir Kjalnesingar sækja vinnu til Reykjavíkur. Þessi leikskólaþjónusta nægir engan veginn fólki sem þarf að vera mætt til vinnu klukkan 8 að morgni, að ég tali nú ekki um þá sem vinna fullan vinnudag. Kostnaðurinn við að sækja vinnu til borgarinnar á eigin bíl er það mikill að það tekur því ekki fyrir venjulegt launafólk að fara þangað fyrir hálft starf. Við sameiningu við Reykjavík lengist opnunartími Kátakots og Kjalnesingar geta fengið leikskólapláss fyrir börn sín í Reykjavík.

Betri samgöngur

Almenningssamgöngur Kjalnesinga eru ófullkomnar. Nú eru áætlunarferðir til Reykjavíkur fjórum sinnum á dag, fimm daga vikunnar. Á laugardögum og sunnudögum eru engar ferðir og ekki heldur á almennum frídögum. Það er ekkert útlit fyrir að sveitarsjóður Kjalarness hafi bolmagn til að fjölga ferðum og miðað við fyrri reynslu má eins búast við að þeim fækki. Okkur er í fersku minni þegar almenningssamgöngur hér féllu niður í heilan mánuð.

Með sameiningu við Reykjavík fáum við Kjalnesingar tíðari ferðir með almenningsvögnum og ekki síst ­ ferðir alla daga vikunnar. Taki gjaldskrá SVR gildi á þessari leið mun einstakt fargjald fullorðinna lækka úr 250 kr. í 120 kr. auk þess sem hægt verður að nota græna kortið.

Forsvarsmenn Reykjavíkur hafa heitið að beita sér fyrir því að lagning Sundabrautar á milli Kjalarness og Reykjavíkur hefjist sem fyrst, verði sameinað. Rætt er um að borgin afli lánsfjár til að framkvæmdir byrji fyrr en vegaáætlun gerir ráð fyrir. Ef ekki verður af sameiningu verður þörfin fyrir þessa samgöngubót ekki jafn knýjandi og hætt við að hún dragist enn um mörg ár. Sameining sveitarfélaganna mun því stuðla að stórbættum samgöngum.

Sameining flestra hagur

Ég ætla ekki að fjölyrða um jákvæð áhrif sameiningar á fasteignaverð á Kjalarnesi, lægri álögur og útgjöld fjölskyldufólks og kosti þess fyrir Kjalnesinga að fá aðgang að faglegri stjórnsýslu á sviði skipulagsmála, byggingarmála, skólamála, barnaverndarmála og félagslegrar þjónustu.

Þann 21. júní gefst okkur kostur á að að segja já við sameiningu og losna með því úr skuldafangelsinu, sem við ella dúsum í fram á næstu öld. Þeir aðilar sem hafa hag af óbreyttu ástandi á Kjalarnesi eru fáir. Frá mínum bæjardyrum séð er hagsmunum alls þorra Kjalnesinga betur borgið með sameiningu og því segi ég já.

Höfundur er viðskiptafræðingur.

Guðfinna Einarsdóttir