KÓR íslensku óperunnar er nú á tónleikaferð um N­Ítalíu. Fyrsti viðkomustaðurinn var bærinn Riva del Garda við Gardavatnið, þar sem tónleikar voru haldnir í Castello Rocca, virki sem reist var í upphafi 15. aldar. Í frétt frá kórnum segir, að aðsóknin að tónleikunum í Garda hafi verið mjög góð, hvert sæti skipað og að auki fjölmargir sem stóðu.
Kór Íslensku óperunnar á Ítalíu

KÓR íslensku óperunnar er nú á tónleikaferð um N­Ítalíu. Fyrsti viðkomustaðurinn var bærinn Riva del Garda við Gardavatnið, þar sem tónleikar voru haldnir í Castello Rocca, virki sem reist var í upphafi 15. aldar.

Í frétt frá kórnum segir, að aðsóknin að tónleikunum í Garda hafi verið mjög góð, hvert sæti skipað og að auki fjölmargir sem stóðu. Á æfingu um daginn dreif líka að fjölda manns, sem hlýddi á sönginn en lét sér það ekki nægja heldur kom einnig á tónleikana um kvöldið.

Kór og einsöngvarar voru klappaðir upp og stjórnandi, einsöngvarar og píanóleikari leystir út með gjöfum.

Fengu að syngja á sviði í Verona

Á miðvikudag hélt svo kórinn áleiðis til næsta tónleikastaðar, miðaldabæjarins Bassona del Grappa, með viðkomu í Verona. Með sérstöku leyfi yfirmanns óperunnar í Verona fékk kórinn að stíga á sviðið þar og syngja nokkur lög, þ.á.m. þjóðsönginn,við hrifningu ferðamanna sem þar voru staddir.

Tónleikar voru í Bassano fimmtudaginn 12. júní, í Bologne 14. júní og í Flórens mánudaginn 16. júní.