Upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík fagnaði í gær 10 ára starfsafmæli sínu. Af því tilefni var ný handverksbúð á Bakaraloftinu að Bankastræti 2 formlega opnuð. Þar mun handverksfólk víðsvegar að af landinu selja muni sína og er tilgangurinn að vekja athygli ferðamanna á íslensku handverki og veita handverksfólki vettvang til að kynna vöru sína.
Upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík

Tíu ára

afmæli fagnað

Upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík fagnaði í gær 10 ára starfsafmæli sínu. Af því tilefni var ný handverksbúð á Bakaraloftinu að Bankastræti 2 formlega opnuð. Þar mun handverksfólk víðsvegar að af landinu selja muni sína og er tilgangurinn að vekja athygli ferðamanna á íslensku handverki og veita handverksfólki vettvang til að kynna vöru sína.

Upplýsingamiðlunin er án endurgjalds fyrir ferðamanninn og að sögn Vilborgar Guðnadóttur, forstöðumanns Upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Reykjavík, hefur það sýnt sig að mikil þörf er á þjónustu sem þessari. Hún segir að markmiðið hafi verið að byggja upp alhliða þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn. Fólk sé farið að ferðast mun meira á eigin vegum og því nýtist þjónustan mjög vel. "Við höfum verið að taka að okkur ný verkefni sem eru tímabundin. Vorið 1995 sáum við um upplýsingaþjónustu fyrir HM og síðastliðið sumar sáum við um miðasölu listahátíðar", sagði Vilborg.

Ferðamálaráð Íslands og Reykjavíkurborg standa að rekstrinum með framlögum en Upplýsingamiðstöðin aflar sér eigin tekna að hluta til. Markmiðið er að veita innlendum sem erlendum ferðamönnum góðar og áreiðanlegar upplýsingar um allt sem viðkemur dvöl þeirra á Íslandi.

Yfir 70 þúsund gestir komu í Upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík árið 1996 en alls komu um 200 þúsund erlendir ferðamenn til landsins á síðasta ári. Auk upplýsingaþjónustu er aðstaða til að skoða landakort, götukort og horfa á myndbönd. Einnig er boðið upp á bókunarþjónustu fyrir gistingu, ferðir, bílaleigubíla og ýmsa afþreyingu.