SELFOSSBÆR á 50 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni verður mikið um dýrðir vikuna 5.­13. júlí. Að sögn Björns Gíslasonar, formanns afmælisnefndarinnar, verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá þessa daga bæði fyrir bæjarbúa og gesti.
Afmælisvika á Selfossi dagana 5.­13. júlí

Útitónleikar, grillveisla

og karnivalstemning

SELFOSSBÆR á 50 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni verður mikið um dýrðir vikuna 5.­13. júlí. Að sögn Björns Gíslasonar, formanns afmælisnefndarinnar, verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá þessa daga bæði fyrir bæjarbúa og gesti.

Helgina 5.­6. júli miðast dagskráin sérstaklega við börn og unglinga og byggist að mestu leyti á karnivalstemningu utandyra. 5. júlí mun afmælissýning verða opnuð í Listasafni Árnesinga og einnig verður tekinn í notkun sérstakur póststimpill á pósthúsinu í tilefni af afmælinu. Föstudagskvöldið 11. júlí verða útitónleikar þar sem unglingahljómsveitir frá Selfossi munu troða upp og sama dag mun bæjarstjórnin vera með hátíðarfund.

Laugardaginn 12. júlí munu forsetahjónin koma í heimsókn og byrjar heimsóknin með móttöku við Selfosskirkju kl. 11. Að lokinni helgistund í kirkjunni er áætlað að forsetahjónin heimsæki Fjölbrautaskóla Suðurlands, Svæðisstjórn Suðurlands, þjónustuíbúðir og vinnustofur aldraðra í Mörk og Listasafn Árnesinga. Klukkan 16.30 er svo áætlað að bæjarbúar og gestir komi saman á útisvæðinu við Engjaveg og taki á móti forsetahjónunum. Þar verður grillað ofan í viðstadda og boðið upp á kórsöng og önnur fjölbreytt skemmtiatriði. Einnig er gert ráð fyrir að forsetinn flytji þar stutt ávarp. Sama dag verður opið Selfossmót í golfi haldið. Um kvöldið verður svo hátíðardansleikur á Hótel Selfossi þar sem gamlar og nýjar hljómsveitir frá Selfossi koma fram og söngvarar rifja upp gamla takta. Meðal annars mun hljómsveit Óskars Guðmundssonar stíga á sviðið. Hljómsveitin Karma leikur svo fyrir dansi.

Afmælisvikan endar á sunnudeginum 13. júlí á hátíðarmessu í Selfosskirkju kl. 10.30. Sama dag mun Stangaveiðifélag Selfoss vera með opið hús þar sem fólki verður m.a. boðið upp á að veiða ókeypis í Ölfusá. "Við vonumst eftir því að brottfluttir Selfyssingar fjölmenni á dagskrána og þá sérstaklega á dansleikinn laugardagskvöldið 12. júlí," segir Björn.