NÓTASKIPIÐ Jón Sigurðsson GK verður selt til Færeyja í sumar. Það er útgerðarfyrirtækið E.M. Shipping í Færeyjum sem kaupir skipið, en það er í eigu Samherja hf. Fyrirtækið hefur verulegar veiðiheimildir til veiða á uppsjávarfiskum í færeyskri lögsögu, auk heimilda til síldveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Jón Sigurðsson

seldur til Færeyja

NÓTASKIPIÐ Jón Sigurðsson GK verður selt til Færeyja í sumar. Það er útgerðarfyrirtækið E.M. Shipping í Færeyjum sem kaupir skipið, en það er í eigu Samherja hf. Fyrirtækið hefur verulegar veiðiheimildir til veiða á uppsjávarfiskum í færeyskri lögsögu, auk heimilda til síldveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Jón Sigurðsson GK er nú í eigu útgerðarfyrirtækisins Siglubergs hf. í Grindavík, sem aftur er í eigu Fiskimjöls og lýsis hf. sem nýlega sameinaðist Samherja hf. E.M. Shipping hefur 8.500 tonna veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum, auk leyfis til veiða á loðnu, kolmunna og makríl. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., segir að skoðaðir hafi verið möguleikar á kaupum á nýju nótaskipi til að nýta veiðiheimildir færeyska fyrirtækisins. "E.M. Shipping hefur yfir að ráða verulegum veiðiheimildum sem ekki hafa verið nýttar í eitt ár. Fyrirtækið átti áður togarann Ester, en hann hefur verið seldur. Við höfum ekki fjárfest í öðru skipi, þannig að til að byrja að nýta heimildirnar höfum við ákveðið að Jón Sigurðsson GK verði seldur til Færeyja," segir Þorsteinn. Hann áætlar að skipið verði afhent Færeyingum í lok júlí, að lokinni sumarloðnuvertíðinni hér við land og fari þá á síldveiðar til manneldis. Þorsteinn segir að einhverjar breytingar verði gerðar á áhöfn skipsins.

Veiða hluta af síldarkvóta

Rússa og Norðmanna

Færeyingar hafa gert tvíflöggunarsamning við Rússa og er því heimilt að veiða hluta af síldarkvóta Rússa úr norsk-íslenska síldarstofninum. Auk þess er Færeyingum heimilt að veiða hluta af síldarkvóta Norðmanna. Þorsteinn segir að E.M. Shipping hafi þessar heimildir og Jón Sigurðusson GK muni væntanlega nýta þær að einhverju leyti.

Finnbogi Alfreðsson, framkvæmdastjóri Fiskimjöls og lýsis, segir að Íslendingar þurfi að skoða slíka tvíflöggunarsamninga í auknum mæli. "Það er úreltur hugsunarháttur að ætlast til þess að þegar menn hafa ákveðinn kvóta, geti þeir ekki ráðið því hvenær á árinu hann er nýttur, til að geta síðan nýtt skipin á öðrum slóðum á öðrum tíma. Þróunin er víðast hvar þessi. Ef endurnýja á nótaflotann þá verður hann að nýtast stærri hluta af árinu. Þá verða að koma til tvíflöggunarmöguleikar af þessu tagi," segir Finnbogi.

Morgunblaðið/Frímann

NÓTASKIPIÐ Jón Sigurðsson var keypt notað til landsins fyrir um tveimur árum, en heldur nú til Færeyja og nýtir sér veiðiheimildir þeirra á uppsjávarfiski.