1.800 námsmenn hafa skráð sig hjá Atvinnumiðlun námsmanna í sumar, sem er meira en nokkru sinni fyrr, og 500 hafa fengið úthlutað vinnu í gegnum miðlunina. Eru þá meðtalin hlutastörf og Nýsköpunarsjóður, en 200 fengu úthlutað úr sjóðnum. Að sögn Kristínar Ásgeirsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra, hafa 450 staðfest við miðlunina að þeir hafi fengið vinnu eftir öðrum leiðum.
Aldrei fleiri á skrá hjá Atvinnumiðlun námsmanna

1.800 námsmenn hafa skráð sig hjá Atvinnumiðlun námsmanna í sumar, sem er meira en nokkru sinni fyrr, og 500 hafa fengið úthlutað vinnu í gegnum miðlunina. Eru þá meðtalin hlutastörf og Nýsköpunarsjóður, en 200 fengu úthlutað úr sjóðnum.

Að sögn Kristínar Ásgeirsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra, hafa 450 staðfest við miðlunina að þeir hafi fengið vinnu eftir öðrum leiðum. Hún segist halda að þeir séu eflaust helmingi fleiri. 250 námsmenn hafi hins vegar endurskráð sig í þessum mánuði, þ.e. staðfest umsókn sína, en þeir sem endurskrá sig reglulega ganga fyrir um atvinnutilboð.

Aldrei hafa fleiri verið á skrá hjá Atvinnumiðlun námsmanna. Í fyrra voru alls 1.500 námsmenn skráðir. Um það bil helmingur þeirra sem skráðu sig í ár eru framhaldsskólanemar, sem er ívið meira en hingað til. "Starfsemin er tuttugu ára og er þetta mesta skráning hingað til," segir Kristín.

"Ástæðan er e.t.v. sú að starfsemin er orðin þekktari meðal námsmanna, þá einnig framhaldsskólanema, og að starfsemin er í örum vexti." Hún segir að atvinnurekendur hafi verið duglegir að senda atvinnutilboð til miðlunarinnar. "Við erum ánægð með þau viðbrögð sem við höfum fengið og vonum að ekki verði neitt lát á," segir hún.