Hermann Ragnar Stefánsson Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(V. Briem.) Tregatár féllu og djúpur söknuður fyllti huga minn er mér barst fréttin um að elskulegur föðurbróðir minn, vinur, vinnuveitandi og samstarfsmaður til margra ára, væri allur.

Kallið var komið, sú stund er við vissum að nálgaðist. Þrautagöngu var lokið. Göngu sem oft var erfið. Frænda tókst þó með undraverðum árangri að yfirstíga hverja hindrunina á fætur annarri með viljastyrk, bjartsýni og trú á lífið að leiðarljósi. Það var lærdómsríkt að fylgjast með hve mikið hann átti af kærleik og gleði að gefa okkur öllum, fjölskyldu og samferðamönnum. Á þessari stundu fyllist hugur minn af minningabrotum, svo mörgum að heila bók þyrfti ef ætti að festa þau öll á blað. Vegir okkar Hermanns lágu saman frá þeim degi er ég fæddist og er ég nú lít yfir farinn veg verður mér ljósara en nokkru sinni fyrr, hve mikil og sterk áhrif hann hafði á mitt lífshlaup.

Skemmtilegt þótti mér fyrir nokkru er ég sat hjá frænda að hlusta á hann lýsa fæðingardegi mínum 23. des. 1940. Sagðist hann aldrei hafa gleymt þessum degi. Vonskuveður var þegar ömmu Rannveigu barst sú frétt að þá um morguninn hefði fæðst fyrsta ömmustelpan í fjölskyldunni. Amma klæddi sig strax upp í peysuföt og Hermann sem þá var 12 ára fór í sín fínustu föt (matrósaföt) því þetta var viðburður og ekki um annað að ræða en fara strax að skoða telpuna. Amma bjó á Grettisgötunni á þessum tíma, en telpuhnokkinn fæddist heima á Sjafnargötu 8. Ekki var um bílaeign að ræða, svo út í hríðina var haldið gangandi. Hló Hermann mikið þegar hann lýsti þessari svaðilför yfir Skólavörðuholtið. Sérstaklega mundi hann rokið og hvernig þau urðu að hvíla sig og skýla undir stórum vegg Austurbæjarskólans á leið sinni. En á Sjafnargötuna komust þau og þar lá sæl og ánægð þessi litla frænka. Frá þeirri stundu átti hann hlut í mér og varð mér á margan hátt sem stóri bróðir.

Sem barn leit ég mjög upp til frænda. Mér fannst hann t.d. syngja og dansa betur en mennirnir í bíómyndunum. Það var því stór stund fyrir litla frænku, sem aldrei gleymist, er frændi bauð mér sjö ára á dansæfingu í Skátaheimilinu, bauð mér upp og marseraði með mig eftir kúnstarinnar reglum um allan danssalinn. Hvílíkt ævintýri. Fræi var sáð.

Frændi lét sig ekki muna um á næstu árum að leyfa mér að vera með þegar hann hélt dansnámskeið og alltaf var hann jafn hvetjandi. Var það honum að þakka að ég þá kynntist þjóðdönsum og ballett sem nýttist mér vel síðar á lífsleiðinni.

Fermingardagurinn kemur upp í hugann, því Hermann átti sinn hlut í hve yndislegur hann varð. Í þá daga var gjarnan slegið upp balli að loknum snæðingi og svo var einnig heima. Þá var það að Hermanni tókst að láta mér líða sem væri ég Ginger Rogers og hann Fred Astair, er hann af sinni alkunnu riddaramennsku leiddi mig inn í stofu þar sem við svifum um gólfið í dansi, ég í hvítum síðum kjól og hann í smóking.

Á unglingsárum mínum var ég einnig að meira og minna leyti í nálægð við Hermann og svo Unni eftir að hún kom ung og heillandi inn í hans tilveru. Mér var sýnt það traust að fá að passa Henny fljótt eftir að hún fæddist og hvert sem ungu hjónin fóru á þessum tíma, hvort heldur var hér í Reykjavík eða í Keflavík, fékk ég að vera með. Aldrei fann ég annað en ég væri hjartanlega velkomin bæði hjá frænda og Unni og var tekið sem jafningja alla tíð. Kynslóðabil hefur aldrei verið til á þeirra heimili, þar hefur verið borin sama virðing fyrir ungum sem öldnum.

Að framansögðu má ljóst vera af hverju það tók mig ekki langan tíma að hugsa mig um þegar Hermann hringdi og bauð mér að aðstoða sig við dansskólann sem stofna átti haustið 1958. Þau hjónin voru þá að koma heim frá Danmörku uppfull af hugmyndum og ekki var hægt annað en hrífast með þegar frændi talaði um allt sem hann langaði að gera. Stórhug vantaði aldrei þegar Hermann vann að hinum ýmsu verkefnum. Þarna var Helgi kominn inn í mitt líf og er skemmst frá því að segja að honum var strax tekið sem einum af fjölskyldunni og mynduðust nú innileg og sterk vináttubönd okkar á milli sem aldrei hefur skugga á borið.

Voru nú brettar upp ermar og við Helgi nánast fluttum inn á Njálsgötuna þar sem lagðir voru dagar við nótt við undirbúning dansskólans. Þetta átti hug okkar allra því Hermanni tókst eins og alltaf að gera hlutina spennandi. Með okkur var einnig Jón Valgeir danskennari sem stofnaði dansskólann með Hermanni en hætti síðar og fluttist til Danmerkur. Allt gekk að óskum og var dansskólanum fádæma vel tekið. Það var svo Hermann sem hvatti mig til að læra til danskennaraprófs og studdi mig á alla vegu. Var ákveðið að við Unnur færum saman til Danmerkur í próf haustið 1960, svo við máttum hafa okkur allar við og Hermann notaði allan þann tíma sem hann mátti af sjá til að undirbúa okkur sem best. Sumarið 1960 fórum við svo til Danmerkur þar sem við sóttum einkatíma og vorum studdar af Hermanni og Helga allan tímann. Þeir voru stoltir af okkur þegar við höfðum báðar staðist prófin. Saman sigldum við svo heim með Gullfossi þar sem áfram var haldið. Hermann var síðan vinnuveitandi minn í 15 ár og var stórkostlegt að fá að vera þátttakandi í því mikla starfi sem hann byggði upp og sérstaklega vil ég geta þess hve mikla alúð hann alltaf lagði í barnakennsluna. Þar hafði hann sérstöðu og veit ég að margir búa að því alla tíð sem til var sáð í Dansskóla Hermanns Ragnars.

Þegar kom að félags- og réttindamálum danskennara var Hermann sá sem frumkvæðið átti. Það var í byrjun september árið 1963 að Hermann kallaði saman nokkra danskennara á heimili þeirra hjóna. Við vorum sjö á þessum fundi, þar sem strax kom fram áhugi fyrir stofnun fagfélags. Skipuð var undirbúningsnefnd og það var svo 20. desember 1963 að Danskennarasamband Íslands var stofnað af 13 samkvæmis- og ballettkennurum og var Hermann kosinn fyrsti formaður félagsins. Hermann hafði mikla trú á að dansnám væri nauðsynlegt hverjum manni og lagði strax ríka áherslu á að danskennarar samræmdu kennslu í skólum sínum. Innan DSÍ var gott fólk sem allt hafði brennandi áhuga á að danskennsla væri sem best og veit ég af nánu samstarfi okkar Hermanns í stjórn DSÍ að hann bar mikla virðingu fyrir sínum félögum og þeirra störfum, þó stundum kæmi upp ágreiningur um áherslur sem ekki er nema eðlilegt þegar móta þarf og samræma. Allir þurftu að gefa eitthvað eftir eða breyta, en slíkt er eðli samninga.

Ég veit að Hermann var stoltur af félaginu og hann vissi að þetta var upphaf af stærra verkefni. Hann hugsaði stórt og var alla tíð í fararbroddi þegar kom að málefnum danskennara og danskennslu. Ekkert gladdi hann meira en að sjá og vera þátttakandi í því öfluga starfi sem dansskólar landsins rækta. Í einkalífi var Hermann hamingjusamur maður. Hann átti yndislega konu og börn og samrýndari hjón en Unni og Hermann er erfitt að finna. Þau studdu hvort annað í hverju því verkefni sem þau tóku sér fyrir hendur. Börnum sínum var hann traustur og góður faðir og studdi þau ávallt með ráðum og dáð. Það var mikil gleði og stolt í röddu frænda er hann sagði frá barnabörnunum og áttu þau stórt rúm í hans hjarta. Er ég þess fullviss að seinna eiga þau eftir að finna hve gott veganesti þau hafa fengið af samvistum sínum við afa sinn.

Við Helgi og börnin okkar fjögur erum á þessari stundu þakklát fyrir að hafa átt samleið með þessum góða manni. Ég mun minnast elskulegs frænda með virðingu og þökk fyrir allt sem hann var mér.

Elsku Unnur, Henny, Arngrímur og Bjössi, ykkur, tengdadætrum og barnabörnum öllum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Megi ykkar stryrkur á þessari stundu eins og okkur öllum vera minningin um góðan mann sem unni öllu því sem var fagurt og gott.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem.) Ingibjörg Jóhannsdóttir.