Ingibjörg Skúladóttir Starfsfólk Bræðranna Ormsson vill senda Ingibjörgu Skúladóttur hinstu kveðjur. Nokkur okkar hafa þekkt hana í áratugi, aðrir hafa starfað með henni nokkur ár og enn aðrir hafa haft styttri kynni af henni. Ekki skiptir máli hversu löng kynnin voru. Þau voru öll á eina lund. Ingibjörg var hógvær, hæglát og þægilegur samstarfsmaður og vinnuveitandi. Þó að hún væri vinnuveitandi okkar var öll hennar framkoma og viðmót á jafningjagrundvelli. Aldrei hallaði hún orði á nokkurn mann, frekar lagði hún lið, ef að einhverjum var vegið í orðum.

Ingibjörg var höfðingi heim að sækja. Gestgjafahlutverkið var henni eðlislægt og öll nutum við þess við hin fjölbreyttu tækifæri, bæði á vegum fyrirtækisins, á heimili hennar og Karls og ekki síður í Stíflisdal þar sem þau höfðu útbúið sér sinn sælureit.

Ingibjörg var vel menntuð og víðlesin. Hún tók stúdentspróf í Noregi og hóf nám í læknisfræði hér heima. Bústörf og aðrar skyldur breyttu áformum hennar, en ekki áhuga á að kynnast fleiru en því, sem næst var heimilinu.

Ingibjörg var mikil málamanneskja og las mikið. Hún átti þess kost að ferðast og nýtti sér þau tækifæri til fróðleiksöflunar og til að víkka sjóndeildarhringinn. Á ferðum sínum var hún ekki aðeins ferðamaður og í mörgum tilfellum fulltrúi síns fyrirtækis, heldur einnig fulltrúi Íslands þar sem saman voru komnir menn úr viðskiptalífi fjölmargra þjóða. Því hlutverki sinnti hún ætíð með miklum sóma.

Við sendum Karli Eiríkssyni, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hennar.

Starfsfólk Bræðranna Ormsson ehf.