Ingibjörg Skúladóttir Í dag vil ég minnast hennar Ingibjargar S. Skúladóttur en með henni átti ég samleið í tæp 15 ár. Við kynntumst þegar ég fór að vinna hjá Bræðrunum Ormsson ehf., þá sem einkaritari mannsins hennar, Karls Eiríkssonar forstjóra. Strax við fyrstu kynni fann ég fyrir þessu hlýja viðmóti, sem var einkennandi fyrir hana. Ég hafði það á tilfinningunni að vera tekin í stóra fjölskyldu og að Ingibjörg væri frekar ein af okkur en forstjórafrú og meðeigandi.

Ingibjörg hefur í mörg ár unnið í fyrirtækinu og séð um innflutning og tollskýrslugerð. Hún átti sæti í stjórn þess um árabil og tók þar með virkan þátt í ákvarðanatöku. Hún stóð við hlið manns síns, styrkti hann og studdi, þegar mótlæti bar að. Hún var alltaf tilbúin að taka höfðinglega á móti gestum og opna þetta fallega heimili þeirra hjóna fyrir þeim. Mér eru ógleymanlegar þær stundir, sem ég átti með Ingibjörgu og Karli í Efstaleiti og ekki síst í Stíflisdal.

Starfsfólk Bræðranna Ormsson var alltaf velkomið og Ingibjörg lagði oft mikið á sig til að elda ofan í stóran hóp starfsmanna og fjölskyldur þeirra.

Þegar Ingibjörg átti sjötugsafmæli á sl. ári hætti hún störfum og hlakkaði til að njóta frelsisins með manni sínum til þess að ferðast og rækta landið sitt í Stíflisdal. Því miður urðu örlögin önnur.

Með þessum fáu orðum ætla ég að kveðja þig, elsku Ingibjörg. Karli og fjölskyldu hans votta ég mína dýpstu samúð.

Elke Stahmer.