Hermann Ragnar Stefánsson Við fráfall Hermanns Ragnars Stefánssonar danskennara er fallinn í valinn einn af fremstu dansfrömuðum þessa lands. Ævistarf hans byggðist fyrst og fremst á því að kenna þjóð vorri að dansa. Fáir gerðu sér betur grein fyrir því hversu þýðingarmikill þáttur dansinn er í lífi okkar. Hermann var óþreytandi að halda merki dansins á lofti og benda á þýðingu dansins sem þátt í almennri menntun barna og unglinga. Hann var einn af stofnendum Danskennarasambands Íslands, fyrsti formaður og síðar einn af stofnendum Dansráðs Íslands, fyrsti forseti þess og sat í stjórn til dauðadags.

Nú að leiðarlokum kveðjum við íslenskir danskennarar, Hermann með virðingu og þakklæti fyrir vel unnin störf í þágu danskennara og dansins á Íslandi.

Ég votta eftirlifandi eiginkonu og börnum samúð allra danskennara.

Fyrir hönd Dansráðs Íslands,

Heiðar Ástvaldsson,

forseti dansráðs Íslands.