Ólöf Jónsdóttir Ólöf J. Jónsdóttir rithöfundur er farin héðan úr þessum heimi. Hún hvarf á hlýjum maímorgni inn í vorið eilífa. Sjálf var hún í ætt við vorið, dýrkaði listina, fegurðina, góðleikann umfram allt. Sést það best á skáldskap hennar, ljóðunum, sögunum og ævintýrunum. Hún var reyndar virtur höfundur, sem sendi frá sér margar bækur og hlaut verðskuldaða viðurkenningu fyrir. Öll hennar skrif eru einstaklega vönduð, á svo fögru máli, hugsunin tær og hlý, svo að auðvelt er að hrífast, beinlínis mannbætandi að lesa þau. Skáldskapurinn líkist oft helst draumsýnum eða töfrandi ævintýrum, stundum sárum, stundum fagnandi, en alltaf einlægum og heillandi.

Sjálf var Ólöf eins konar álfamær hér á jörð, að sumu leyti gerð úr of fíngerðu efni fyrir þennan heim. Ef til vill hefði það ekkert komið á óvart þótt hún hefði skyndilega risið upp úr stólnum, sveipað um sig blæjum og dansað sem huldukona á vit ævintýranna sinna.

Já, hún var falleg kona hún Ólöf og átti bjart bros og hlýtt handtak sem yljað gat að hjartarótum. Jafnvel þegar líkaminn var orðinn sem veikburða strá í vindi var alltaf einhver tign og göfgi yfir svip hennar og fasi.

En nú hefur hún gengið götuna á enda í þessu lífi, götuna sem stundum er grýtt og brött en líka með blómum skrýdd engi til beggja hliða.

Ólöf er nú að leggja út á nýjar og áður ókunnar slóðir. Ég sé hana fyrir mér þar sem hún heldur af stað, ofurlítið reikul og hikandi í fyrstu en smám saman verða skrefin ákveðnari og öruggari. Sólin er að koma upp bak við tindana úti við sjóndeildarhringinn. Þangað er ferðinni heitið. Gráföl morgunskíman breytist í tindrandi birtu og ferðalangurinn skynjar ilminn af grasinu og blómunum í kring. Og allt í einu hefur sólin náð að snerta andlit gestsins sem gengur fagnandi á móti ljósinu, móti guði sínum, inn í veröld eilífðarinnar og veit að öllu er óhætt.

Góða ferð, Ólöf mín. Þú átt eftir að yrkja ennþá fegurri ljóð, ennþá dýrðlegri ævintýri en nokkru sinni fyrr, hvort sem þú velur að kanna áfram ótroðna stigu eða hverfa að nýju til þessarar jarðar seinna meir.

Drottinn blessi ógengnu sporin þín og verndi ástvini þína alla.

Sigríður I. Þorgeirsdóttir.