Ólöf Jónsdóttir Ólafar minnist ég sem kærleiksríkrar konu sem gaf svo mikið af sér. Ég unni Ólöfu eins og ömmu minni. Við vorum vinkonur frá upphafi okkar kynna. Ólöf kenndi mér að meta sjálfa mig og það sem ég hef í kringum mig. Ég kallaði Ólöfu alltaf rósina mína. Hún var rósin mín. Það var alltaf svo bjart heima hjá Ólöfu. Það geislaði af henni lífskraftur og kærleikur. Mér leið alltaf svo vel hjá rósinni minni og var alveg endurnærð eftir heimsóknir til hennar.

Við kynntumst þegar ég kom í vinnu til Ólafar 1990. Þá bjó hún í Ljósheimunum og þegar hún flutti í Norðurbrúnina þá fékk ég að vinna áfram hjá henni, þangað til ég fluttist vestur til Súðavíkur sumarið 1993. Það fannst mér mmjög erfitt því að ég gat ekki hitt hana eins oft, en það get ég sagt að þegar ég kom suður til Reykjavíkur þá var ferðin ekki fullkominn fyrr en ég hafði hitt Ólöfu mína. Við vorum í reglulegu símasambandi til að hressa hvor aðra upp og segja fréttir. Það dundi margt á hjá Ólöfu minni, eins og gengur og gerist, en hún stóð þessar hremmingar eins vel af sér og aðstæður leyfðu, Ólöf var eins og bjarg í sjó. Ég mun sakna rósarinnar minnar sem var svo falleg og góð. Ég mun varðveita minninguna að eilífu.

Sofðu vært, elsku Ólöf mín.

Fjölskyldu Ólafar votta ég samúð mína.

Björk Ína Gísladóttir.