Reynir Örn Kárason Allt var svo friðsælt, eðlilegt og sjálfsagt á þessum fimmtudagsmorgni. Fullorðnir og börn við leik og störf og allar áhyggjur virtust víðsfjarri. En þá gerðist það sem allir hafa einhverntíma leitt hugann að en fáir þorað að hugsa til enda. Það varð slys. Hörmulegt slys sem engum var um að kenna. Það var líkt og tíminn stæði kyrr eitt andartak og þögnin ein ríkti. Allt svo óraunverulegt, gat þetta virkilega verið að gerast? Þetta getur ekki verið alvarlegt, hann er svo hraustur. Alls konar spurningar fljúga í gegnum hugann á örskotsstundu. Svo margar spurningar en svo fá svör. Tilraunir gerðar til að kveikja líf sem slokknað var. Mestöll orka fer í að reyna að halda örvæntingunni niðri sem kraumar þó í öllum æðum. Sumir skynja grimmd heimsins í fyrsta sinn, öðrum kippt niður í hyldýpi sorgarinnar fyrirvaralaust einu sinni enn. Hann Reynir litli er dáinn. Ekkert tár virðist nógu salt, engin orð virðast segja neitt, engin huggun virðist nógu hughreystandi. Sorgin hefur knúið dyra og hún sýnir ekki á sér neitt fararsnið. Í þetta skipti stendur enginn ósnortinn og sorgin hefur gert sig heimakomna í öllu byggðarlaginu. Fólkið allt er sem lamað og hugurinn tollir ekki við hversdagslega hluti sem allir virðast svo tilgangslausir og hégómlegir.

Svo oft hafði ég fylgst með þessum litla snáða út um gluggann hjá mér. Eitt sinn sá ég hann detta illa á hjólinu sínu. Í stað þess að kveinka sér stóð hann rakleitt á fætur og hjólaði aftur af stað. Svona var Reynir. Fullur af einhverjum lífskrafti sem smitaði út frá sér. Harðduglegur drengur sem vildi helst af öllu leika sér úti alla daga frá morgni til kvölds. Ég var stoltur af þessum litla frænda mínum sem allir vegir virtust færir. Eitt sinn sá ég hann koma hlaupandi út á náttfötunum snemma morguns, hverfa svo inn aftur skríkjandi í fangi mömmu sinnar, sem gat ekki annað en hlegið með litla grallaranum. Ótal litlar myndir sem þessar leita nú upp á yfirborð hugans. Myndir sem voru svo hversdagslegar þá en hafa öðlast ómetanlegt gildi nú.

Þegar Reynir litli fæddist var honum vart hugað líf sökum þess hve honum lá mikið á að komast í heiminn. En hann sigraði dauðann þá og varð hraustur og heilbrigður drengur. Daginn áður en hann dó var hann að leika sér á lóðinni hjá mér og að hjálpa Lind að pússa upp sófasettið. Ég spjallaði aðeins við hann út um gluggann en nú vildi ég óska þess að ég hefði gert eitthvað miklu meira en það. Þótt Reynir lifði aðeins í fjögur ár er það huggun harmi gegn að það voru fjögur yndisleg ár. Hann naut einstaks ástríkis foreldra sinna sem elskuðu litla drenginn sinn svo heitt. Hjá Þóreyju frænku sinni og Skafta átti hann alltaf skjól eins og hjá ömmu sinni og afa í Hafbliki. Ömmu hans á Svalbarði þótti afar vænt um hann eins og öllu því fólki sem þekkti þennan lífsglaða dreng. Það var aldrei erfitt að fá eldri krakka til að líta eftir Reyni. Það var eftirsóknarvert og þessir krakkar hafa nú misst vin sem stóð hjarta þeirra nærri. Hjá langömmu sinni á Hjallhól þáði hann gjarnan góðgerðir eins og hjá mörgum góðum konum sem höfðu yndi af að gleðja hann. Reynir litli naut meiri ástar og umhyggju en margir fá notið á heilli mannsævi og það er nokkuð sem við getum glaðst yfir.

En sorgin er mikil og skarðið er stórt. Elsku Helga Björg og Kári, þið hafið misst son sem þið elskuðuð af öllu hjarta. Haldið áfram að vera sterk. Börnin ykkar, Óttar og Steinunn, þurfa svo mikið á ykkur að halda við að takast á við bróðurmissinn. Kári minn, þú veist hvað það er að vera barn og missa einhvern sem er þér nákominn. Þá reynslu getur þú notað nú til að hjálpa börnunum þínum. Hugur okkar allra dvelur hjá ykkur, kæra fjölskylda, og mun ekki hverfa frá ykkur í bráð. Elsku Þórey, Skafti, Þóra, Eiríkur og Sveina, þið hafið misst gimstein úr ykkar tilveru. Þótt minningarnar séu sárar nú eru þær ómetanlegir fjársjóðir sem eiga eftir að ylja ykkur um hjartarætur í framtíðinni. Elsku Ásta mín og fjölskylda. Þið eruð aftur á kunnuglegum slóðum. Þið vitið hvernig það er að takast á við sorgina en þið vitið líka betur en flestir aðrir að öll sár skilja eftir sig ör. Sárin munu þó gróa að lokum og eftir mun standa minningin um yndislegan dreng. Það vekur aðdáun að fylgjast með heilu byggðarlagi sameinast eins og ein fjölskylda í sorg sem á sér engin takmörk. Framundan er erfiður tími þar sem allir verða að leggjast á eitt til að hjálpa þeim sem eiga um sárast að binda.

Þessi orð mín eru sama marki brennd og önnur orð. Þau megna lítið þegar kemur að þvílíkum sorgaratburði og hér hefur gerst. En stuðningur, samúð og hluttekning eru þau haldreipi sem við verðum að grípa til. Ég og fjölskylda mín viljum votta öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Mig langar að enda þetta á ljóði sem Ásta amma Reynis litla samdi nóttina eftir lát hans.

Lífs á morgni lítill drengur

lífið kvaddi og burtu fór.

Í æðri heimi glaður gengur

hjá Guði verður sál hans stór.



Árin fjögur þökkum þér,

þér við aldrei gleymum.

Í hjörtum allra harmur er.

Í huga mynd við geymum.



Guð minn góður færðu frið

foreldrunum þjáðu.

Gefðu sárum sálum grið

særðum huggun ljáðu.

Elsku Reynir Örn, hvíl þú í friði.

Þinn frændi

Ásgrímur Ingi.