Reynir Örn Kárason Einmitt þegar sumarið var að leysa af langan og strangan vetur þá reið áfallið yfir. Sólargeislinn í götunni okkar, Reynir Örn, frá okkur tekinn aðeins fjögurra ára. Það var alltaf gaman að koma heim í götuna okkar og hitta Reyni sem oftar en ekki var úti að leika sér. Alltaf heilsaði hann mér og alltaf hafði hann frá einhverju að segja. Núna vildi ég auðvitað að ég hefði spjallað miklu meira við hann en það er of seint. Daginn áður en hann lést sagði hann mér með eftirvæntingu í röddinni að hann ætlaði bráðum að heimsækja litlu stelpuna mína sem kom heim af fæðingardeildinni þann sama dag. Því miður fékk hann ekki tækifæri til þess en seinna mun ég segja þessari litlu frænku hans frá Reyni frænda.

Elsku Kári, Helga Björg, Óttar, Steinunn og þið öll hin sem syrgið góðan dreng, ég veit að þið munið í sameiningu finna kraft til að takast á við þessa miklu sorg. Hjá okkur Völu Báru lifa minningar um lífsglaðan og hjartahlýjan dreng og þær munu ylja okkur um ókomin ár.

Heiðar.